138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við væntanlegum dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán.

[10:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli er mikilvægt að leggja á það áherslu að markmiðið er að greina stöðuna og eiga tilbúnar ólíkar leiðir eftir því hvernig dómurinn fer til að gera hvort tveggja í senn, greiða fyrir úrlausn þessara erfiðu mála þannig að skuldamál einstaklinga og fyrirtækja verði sem hraðast leidd til lykta til að greiða fyrir efnahagslegri endurreisn ásamt því að forða áföllum fyrir fjármálakerfið. Mjög gott dæmi er ágreiningur um það hvernig haga ætti endurkröfum ef t.d. bíll hefur gengið kaupum og sölum þremur eða fjórum sinnum. Hvernig á að haga endurgreiðslunni, hvernig á að vinda ofan af erfiðum skuldamálum? Það er mikilvægt að löggjafinn sé tilbúinn með leiðir til að greiða fyrir því uppgjöri sem eðlilega þarf að eiga sér stað því að við eigum öll mikið undir því að ósjálfbær skuldastaða einstaklinga og fyrirtækja verði löguð að því sem (Forseti hringir.) raunveruleikinn kallar á.