138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

hagvöxtur.

[10:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki úr vegi að ég byrji þessa fyrirspurn mína á því að óska nýjum hæstv. efnahagsráðherra til hamingju með vegtylluna um leið og ég óska þess að hann standi sig betur en sá síðasti. (Gripið fram í: Hahh.) (Gripið fram í: Hey.)

Á fimmtudaginn fluttu hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra þann boðskap að landið væri að rísa og að kreppunni væri lokið. Með leyfi forseta:

„Hagvöxtur hefur mælst undanfarna sex mánuði, meira en hálfu ári fyrr en reiknað hafði verið með,“ sagði hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Jafnframt þökkuðu hæstv. ráðherrar sér landrisið og sögðu það furðulegt að stjórnarandstaðan gleddist ekki yfir þessum mikla árangri. Á föstudaginn voru hins vegar birtar nýjar hagtölur sem segja að landsframleiðslan hafi dregist saman um 7,3% að raunvirði fyrstu sex mánuðina, fjárfesting einkaaðila um 3,2%, fjárfesting opinberra aðila um 11,3% og þjóðarútgjöld um 7,4%. Því langar mig til að spyrja hæstv. efnahagsráðherra hvort hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi verið að blekkja þing og þjóð. Eða er það e.t.v. svo, sem er mun alvarlegra, að hæstv. ráðherrar viti ekki hver staðan er á þjóðarbúinu?