138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir um hálfu ári boðaði núverandi ríkisstjórn til blaðamannafundar. Tilefnið var að tilkynna að allar aðgerðir í þágu heimilanna væru komnar fram. Meira yrði ekki gert. Það var blaðamannafundur með fjórum ráðherrum. Nú er sagt að það eigi að ráðast í stórkostlegt átak.

Hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra segir: Við verðum að taka á þessum gríðarlega vanda.

Það er rétt, ég boðaði til utandagskrárumræðu í vor til að fjalla um það hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera.

Það kom fyrirspurn áðan frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni þar sem hann spurði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurstöðu gengistryggða lánsins. Svör hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra voru á þá leið að þau ætli að hlíta niðurstöðu dómsins. En þau ætla um leið að setja lög (Forseti hringir.) til að bregðast við óvissu.

Virðulegi forseti. Við verðum að fá svör. Við framsóknarmenn höfum boðað aðgerðir sem hefðu reynst þjóðinni farsælar ef á þær hefði verið hlustað (Forseti hringir.) en ekki snúið út úr eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gerir hér og nú.