138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

atvinnuuppbygging.

[10:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg óþolandi að hlusta hér á ráðherra hæstv. ríkisstjórnar byrja aftur með þennan Icesave-söng sem okkur er svo kunnur frá síðasta ári. Það er alveg óþolandi að nú eigi að gera það mál að einhverjum blóraböggli fyrir því að hér sé allt að stöðvast þegar það liggur fyrir að það er auðvitað fyrir verk ríkisstjórnarinnar sem ekkert kemst hér áfram.

Á föstudaginn vorum við í utandagskrárumræðu um uppbyggingu í orkufrekum iðnaði við hæstv. iðnaðarráðherra. Hún svaraði engri af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana þá og þess vegna er nauðsynlegt að ég taki málið upp að nýju. Það er gríðarlega mikilvægt að fá skýr svör um afstöðu ráðherra gagnvart mikilvægum málum þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Þess vegna bið ég hana um að skýra betur ummæli sín um það að það sé við Alcoa að sakast hversu hægt gangi með atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Ég vil að hún geri grein fyrir afstöðu sinni gagnvart Norðlingaölduveitu, nýtingu hennar, en um hana má segja að þar er hagkvæmasti virkjanakostur landsins, hann er sá virkjanakostur sem hefur minnst umhverfisáhrif í för með sér.

Þennan virkjanamöguleika virðast hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra hafa sammælst um að slá af. Þær segja reyndar um þetta mál að þær hafni því að friðlýsingum sé stefnt gegn Norðlingaölduveitu heldur snúist friðlýsingin um friðlýsinguna sjálfa og það að vernda einstaka svæði. Þetta er náttúrlega algjört bull og ég vil vita hvort þessi (Gripið fram í.) friðlýsing sé til þess ætluð að koma í veg fyrir þennan hagkvæmasta virkjanakost.

Ég vil líka heyra bara í örfáum orðum skoðun ráðherrans á virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Mig langar einnig að heyra frá henni hver afstaða hennar er gagnvart því mikilvæga verkefni á Suðurnesjum sem er nefnt ECA. Það eru þotur sem verða notaðar til æfinga. (Forseti hringir.) Hver er hugur hennar til þess verkefnis? Þar mun skapast á annað hundrað störf fyrir iðnaðarmenn.