138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:00]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að okkur yrði meira úr verki ef hv. þingmaður reyndi að afmarka sig betur í staðinn fyrir að koma hér með fimm óskyldar spurningar til mín fyrir tveggja mínútna svar. Þetta er svo sem í anda hv. þingmanns sem meira hefur talað í frösum og slagorðum þannig að fyrirspurn hans kemst fyrir á þessum tíma en því miður mun ég ekki geta svarað [Háreysti í þingsal.] öllum hans spurningum í þessu svari.

Virðulegi forseti. Það er rétt að við náðum ekki að fara í ECA fyrir helgina þegar við ræddum hér atvinnumálin, eða réttara sagt ræddum stóriðju og virkjanakosti, en hv. þingmaður spurði um afstöðu mína til ECA. Það mál er ekki á borði iðnaðarráðuneytisins, enda er einkafyrirtæki að semja um leigu á aðstöðu og sækja líka um skráningu véla. Stangist starfsemin hvorki á við íslensk lög né alþjóðlega samninga eða sáttmála hefur málið bara sinn gang í stjórnkerfinu alveg eins og öll önnur uppbyggingarverkefni og er ekki sérstakt pólitískt úrlausnarefni. Flugmálastjórn er að hefja kannanir og leita svara við ýmsum spurningum áður en hægt er að skrá vélarnar og þar er málið einfaldlega statt. Hv. þingmaður fengi örugglega fyllri upplýsingar ef hann spyrði þann ráðherra sem fer með málið.

Það er dálítið merkilegt að heyra hvað menn eru hér viðkvæmir fyrir þeirri gagnrýni sem kemur frá ríkisstjórninni á hendur stjórnarandstöðunni og ábyrgðarleysi hennar þegar kemur að uppbyggingu hér á landi. Það er staðreynd að þessi stjórnarandstaða er að þvælast fyrir mikilvægum atriðum sem við þurfum að leysa úr hvað varðar Icesave (Gripið fram í.) til þess að halda hér uppbyggingunni áfram. [Háreysti í þingsal.] Þegar menn leggja það til í alvörunni í þingsölum að það eigi að draga til baka umsóknina um Evrópusambandið er alveg ljóst hvert þessi stjórnarandstaða ætlar að fara með uppbygginguna hér á landi. Hún ætlar að stoppa allt og þvælast fyrir öllu enda er verið að tryggja með þessu að við verðum fyrir slíkum orðsporshnekki að fjárfestingar verði ekki möguleiki hér á landi á næstu árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)