138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega alveg orðlaus. Hæstv. ráðherra hafði sjö mínútur í utandagskrárumræðu til að svara spurningum mínum fyrir helgi og hún kaus að svara þeim ekki. Og þið hafið orðið vitni að því hérna núna hvernig hæstv. ráðherra hagar málflutningi sínum. Hún fer út og suður og svarar engu sem fyrir hana er lagt. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að ráðherrar skuli haga sér svona. Ég er einfaldlega að spyrja hér spurninga sem krefst ekki langs tíma að svara. Ég kref hana svara um skoðanir hennar og stefnu í ákveðnum málum sem snúa að atvinnuuppbyggingu í þessu landi. Ég spyr hana um verkefnið í Keflavík sem er gríðarlega mikilvægt. Ég er að spyrja hana um orð hennar þar sem hún kennir Alcoa um að atvinnuuppbygging í Norður-Þingeyjarsýslu komist ekki áfram. Ég er að spyrja hana um afstöðu hennar gagnvart Norðlingaölduveitu, hagkvæmasta virkjanakosti sem við eigum. Ég er að spyrja hana um afstöðuna gagnvart virkjunum í neðri hluta Þjórsár en um það efni liggur fyrir þingsályktunartillaga (Forseti hringir.) okkar sjálfstæðismanna, okkar hv. þm. Ólafar Nordal.

Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að hér komi ráðherrann (Forseti hringir.) og fari að ræða um Evrópusambandið (Forseti hringir.) og Icesave eins og hún gerði fyrir helgina. (Forseti hringir.) Svona málflutningur gengur ekki upp. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.)