138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[11:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um mál sem ég flyt í félagi við aðra þingmenn um að gerð verði áætlun um ferðamennsku á miðhálendinu þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.

Hér hefur komið fram að ferðamönnum fjölgar ört. Þeir voru 500 þúsund í fyrra. Það stefnir í að þeir verði milljón árið 2016. Þessari áætlun á að ljúka fyrir árslok 2013 þannig að það þarf að hefja vinnslu hennar sem fyrst.

Ég vil fá að þakka sérstaklega af þessu tilefni konu úti í bæ, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands, sem hefur aðstoðað mjög við gerð þessa máls. Ég vil líka fá að þakka sérstaklega hv. iðnaðarnefnd sem var framsýn við vinnslu málsins og kom því þannig fyrir að við gátum samþykkt það með smávægilegum breytingum.

Virðulegi forseti. Í síðustu viku gekk ég Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þá leið ganga 8–10 þúsund manns á ári. Dæmi eru um að 1.800 manns séu á Hakinu á Þingvöllum á sömu mínútunni. Þetta verðum við allt að taka til okkar og hefja sem fyrst vinnslu áætlunar þannig að við getum tekið vel á móti gestum án þess að ganga um (Forseti hringir.) of á umhverfið á sama tíma. Þess vegna segi ég já.