138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

fundarstjórn.

[11:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir ósk hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Í rauninni er þetta eins sjálfsagt og getur orðið. Við erum að tala um risamál, það er verið að breyta Stjórnarráðinu, og það hefur verið unnið í ótrúlegum flýti og flaustri. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa frumvarpið og rökstuðning með því. Í því eru svo meinlegar staðreyndavillur að það er augljóst að enginn sem þekkir til hefur fengið að lesa þetta yfir. Sérstaklega vísa ég í rökstuðninginn um velferðarráðuneytið. Þar segir að það væri mjög gott að sameina tvö ráðuneyti til að hægt verði að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu — sem er löngu búið að gera. Þetta er svo pínlegt eins og mest má verða og það er fullkomið hneyksli ef fagnefndir fá ekki að fjalla um þetta mál.