138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun í framsögu fyrir nefndaráliti á eftir koma inn á efnisatriði málsins en það eru tvö atriði sem snerta þau sjónarmið og breytingartillögur sem koma fram hjá meiri hlutanum sem ég ætlaði að spyrja hv. formann allsherjarnefndar nánar um.

Annars vegar er tiltölulega lítið atriði sem ég vil biðja hann um að skýra fyrir mér. Samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans eiga lögin, þar með öll ákvæði þeirra, að taka gildi 1. janúar 2011 og þá á breytingin sem varðar þau ráðuneyti sem eftir standa — ef búið er að taka atvinnuvega- og umhverfisráðuneytin út úr þessum breytingapakka, þá standa eftir, eins og hv. formaður nefndi, annars vegar innanríkisráðuneyti sem samanstendur af dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti og hins vegar velferðarráðuneyti sem samanstendur af félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.

Skil ég ummæli í einni af lokamálsgreinum nefndarálits meiri hlutans rétt, að það verði heppilegast að sami einstaklingur stýri því sem lýtur að auðlindamálunum eða sem sagt atvinnuvegamálunum, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptamálum, að sami maður verði iðnaðarráðherra, viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá og með næstu áramótum þrátt fyrir að engin lagabreyting hafi átt sér stað því til stuðnings?