138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni fyrir svörin. Þetta hefur aðeins skýrt þetta fyrir mér og ég tek það fram að ég mismælti mig þegar ég sagði að viðskiptaráðuneytið væri þarna undir þannig að um er að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti annars vegar og iðnaðarráðuneyti hins vegar. Það er mögulegt að sami maður hafi mismunandi ráðuneyti á sinni könnu án þess að sú breyting eigi sér stað sem sést best af því að ríkisstjórnin hefur þegar hrókerað mönnum innan ríkisstjórnarinnar án þess að þessi breyting sem hér er boðuð hafi náð fram að ganga. Málið er reyndar aðeins búið að fara í eina umræðu af þremur í þinginu. En þá er spurningin: Af hverju er meiri hluti allsherjarnefndar ekki þeirrar skoðunar að með sama hætti sé hægt að færa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið annars vegar og iðnaðarráðuneytið hins vegar undir sama einstakling núna til að stýra þeirri þróun sem boðuð er í frumvarpinu og nefndarálitinu? Eru einhverjar faglegar ástæður sem búa þar að baki eða er um að ræða hluta af þeim pólitíska vandræðagangi sem ríkisstjórnin er í út af þessum málum?