138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir hreinskilin svör en verð jafnframt að lýsa vonbrigðum mínum með að hv. allsherjarnefnd hafi ekki skoðað þá fullyrðingu og bókun sem var lögð fram í þingsal af tveimur hv. stjórnarþingmönnum og einum hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands um að framlagning málsins, undirbúningur og vinna þessa frumvarps stangist á við þær reglur og þau lög sem gilda á Alþingi um hvernig á að leggja svona mál fram. Þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að hv. allsherjarnefnd hafi ekki farið yfir þessa hluti. Ég tel mjög mikilvægt að það verði gert og að menn skoði ofan í kjölinn þessa fullyrðingu sem var lögð fram sem bókun í þingsal um að málið væri vanreifað og illa undirbúið og m.a.s. að það uppfyllti ekki þau skilyrði sem lagafrumvörp ættu að uppfylla þegar frumvörp eru lögð fram á Alþingi.

Ég fagna hins vegar því sem hv. þingmaður sagði líka í umræðum um fundarstjórn forseta hér áðan, þeirri viðleitni hv. þingmanns að vísa málinu til fagnefndanna og vinna þetta mál eins vel og hægt er úr því sem komið er. Ég fagna því og það er bara hið besta mál. Ég teldi eðlilegt að þetta kæmi til allra fagnefnda, hvort heldur er samgöngunefndar, félags- og tryggingamálanefndar eða annarra. Ég tel það mikilvægt.

Það kemur líka annað fram í þessari bókun sem kannski staðfestir allt það sem hv. þingmaður lét liggja að áðan að væri ekki vandræðagangur ríkisstjórnarinnar. Það blasir við öllum þeim sem vilja sjá og hafa augu og eyru opin að auðvitað er það ekkert annað en vandræðagangur ríkisstjórnarinnar hvernig fallið er frá málinu. Það kemur líka fram í áðurnefndri bókun frá þessum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra að þetta muni veikja pólitíska stöðu Vinstri grænna. Ef það verður niðurstaðan þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson, hæstv. ráðherra núna, (Forseti hringir.) er settur og fær þessa rjómaskál fær hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason að vera við hliðina á honum (Forseti hringir.) fram að áramótum. Það blasir við öllum sem vilja sjá.