138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verulegur skoðanamunur á því á milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvað teljist almennt til vandræðagangs í pólitík. Skoðanaágreiningur eða skoðanamunur á milli flokka eða jafnvel innan flokka telst ekki í mínum bókum sérstakur vandræðagangur. Í mínum huga er það það sem stjórnmál ganga út á, að þar komi saman fólk með ólíkar skoðanir og reyni að ná einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu sem byggir á þessum ólíku skoðunum. (Gripið fram í.) Ef það tekst ekki ræður meiri hlutinn en það er enginn vandræðagangur í mínum huga að það séu mismunandi skoðanir innan Vinstri grænna eða innan Samfylkingar eða á milli þessara tveggja flokka. (Gripið fram í: Hvaða …?)

Það þótti hins vegar gríðarlegur vandræðagangur í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það mátti ekki koma til tals að fólk innan þessara flokka eða fólk á milli þessara flokka hefði skiptar skoðanir eða ólíkar skoðanir á hlutum. (Gripið fram í.) Gott og vel, ég virði alveg þá upplifun manna af stjórnmálunum. Ég virði það alveg ef fólk lítur svo á stjórnmálaflokka að þar eigi allir að tala einum rómi og helst hinum sama og formaðurinn. (Gripið fram í.) En ég lít einfaldlega ekki þannig á stjórnmálin. Hér á þingi er líka verulega stór hópur fólks, m.a.s. meiri hluti, sem upplifir hlutina þannig. Við það verður minni hluti þings einfaldlega að sætta sig, a.m.k. næstu þrjú ár. (Gripið fram í.)