138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni 1. minni hluta fyrir framsögu hans þó að ég sé að sjálfsögðu ekki sammála öllu því sem kom fram í máli hans. Ég held að það sé mikilvægt þegar menn gagnrýna undirbúning frumvarpsins — sem er alvanalegt hér í þinginu þegar um stærri breytingar er að ræða, alveg sama hvernig frumvörpin eru unnin er alltaf gagnrýnt að þau séu illa undirbúin — að hafa nokkur atriði í huga. Það hefur verið á döfinni í mörg ár og áratugi að sameina og fækka ráðuneytum. Flestir eru þeirrar skoðunar að ráðuneytin séu allt of mörg og þau þurfi að styrkja og efla. Ég minni þar á rannsóknarnefnd þingsins sem lagði mikla áherslu á þann lið í úrbótum í stjórnkerfinu að fækka, stækka og styrkja ráðuneytin. Sama gerði finnskur sérfræðingur sem skilaði skýrslu um efnahagsráðuneytið. Hann lagði til að efnahagsþættirnir yrðu settir í eitt ráðuneyti og það hefur verið gert. Ég held að það séu full rök fyrir sameiningunni sem við erum að ræða. Það getur ekki annað verið en að flestir viðurkenni að mikil hagræðing og sparnaður séu fólgin í því að sameina t.d. félags- og heilbrigðisráðuneytið. Í gegnum tíðina höfum við orðið vör við mikla árekstra í samskiptum þessara tveggja ráðuneyta, t.d. í málefnum aldraðra.

Það er alveg ljóst að ef við fækkum stofnunum, sem ég tel að sé mikilvægt að gera, er þetta mikilvægur undirbúningur í því að fækka ráðuneytum. Vissulega er undirbúningurinn mikill. Fyrst þarf að skipa ráðherra til verka í sameiningunni þannig að ekki séu tveir ráðherrar að undirbúa sameiningu tveggja ráðuneyta í eitt heldur einn sem ég tel mun faglegri vinnubrögð. Síðan eru ráðuneytisstjórar skipaðir til verka áður en að sameiningunni kemur, (Forseti hringir.) í þessum ráðuneytum á það að vera um áramót. Ég tel því ekki maklega alla þessa gagnrýni sem hv. þingmaður hefur sett hér fram.