138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að halda því til haga í umræðunni að víða í löndunum í kringum okkur er ekki farið með ráðuneytisbreytingar og fækkanir á þeim inn í löggjafarsamkunduna. Þar eru til staðar heimildir til að sameina og flytja verkefni milli ráðuneyta án þess að farið sé með þau á löggjafarsamkunduna. Ég veit ekki betur en að til sé heimild með forsetaúrskurði til að fara í slíkar sameiningar. Við töldum rétt og eðlilegt í sumar, af því verið er að tala um skort á samráði og lítinn undirbúning, að setja málið í þennan farveg, þ.e. að fara með það inn í þingið, þannig að ég tel að ekki sé annað hægt en að segja að þetta sé til fyrirmyndar.

Varðandi það að lítið er gert úr sparnaði við þessar breytingar þá fór hv. þingmaður ítarlega yfir mat þar sem því er haldið fram að sparnaður vegna fækkunar ráðuneyta geti orðið um 360 milljónir þegar allt er komið til framkvæmda. Ég sé enga ástæðu til þess að draga það í efa. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að fjárþörf væri í forsætisráðuneytinu. Ég er ekki viss um að hann fari þar með rétt mál og verður auðvitað að skoða málið í því samhengi að það fækkaði í ráðuneytinu þegar þeir sem fóru með efnahagsmálin fluttust yfir í efnahagsráðuneytið. Að sama skapi breyttust hlutföll forsætisráðuneytisins í það að vera samræmingarráðuneyti með ýmsum hætti. Þar var komið á fót löggjafarskrifstofu sem hefur oft verið kallað eftir (Gripið fram í.) og það kallar á mannskap. Ég tel að það væri líka fróðlegt fyrir hv. þingmann, ef hann er að tala um útgjöld í forsætisráðuneytinu, að skoða rekstrarliði ráðuneytisins. Þar hefur orðið ótrúlega mikill sparnaður. Menn verða auðvitað að skoða málið í heild sinni.

Ég tel ekki hægt að gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Við höfum frestað atvinnuvegaráðuneytinu. Þar voru fleiri athugasemdir og við ætlum að gefa okkur betri tíma í það, (Forseti hringir.) m.a. að skoða það með hagsmunaaðilum. Ég tel að úr þessum ræðustól sé of mikil áhersla lögð á að gagnrýna þessi vinnubrögð. (Forseti hringir.) Ég held að þau séu þvert á móti á margan hátt til fyrirmyndar.