138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að bæta við spurningu og fá að heyra álit hv. þingmanns á þeirri fullyrðingu sem hér er meðal annars verið að byggja á vinnu nefndar undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálaprófessors, um að ráðuneytin hafi í efnahagshruninu sjálfu reynst of smá og veikburða. Það er reynsla þess sem hér stendur að svo hafi verið. Það var svo á þeim tíma að ráðherrar voru á harðahlaupum inn á blaðamannafundi þegar þeir réðu til sín upplýsingafulltrúa. Ég man t.d. eftir því að það komst í fréttirnar og í hámæli að forsætisráðherra neyddist til að ráða til sín til ráðgjafar á þessum tímum, mjög erfiðum vikum sem gengu yfir í íslensku þjóðlífi, norskan hernaðarsérfræðing til að geta ráðið fram úr verkefnum dagsins. Þannig var nú fyrir okkur komið enda held ég að forsætisráðuneytið hafi þá haft yfir um 15 starfsmönnum að ráða. Er ekki öllum ljóst, þarf nokkurn eldflaugasérfræðing í að sjá það út, að slík ráðuneyti eru of veikburða til að geta tekist á við jafngríðarleg verkefni og blöstu við ríkisstjórn Íslands á þessum tíma?