138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt er það hvernig menn bregðast tímabundið við stórfelldri krísu sem á sér ekki fordæmi og annað hvernig menn haga málum til framtíðar, hvernig menn skipa málum undir venjulegum kringumstæðum. Ég held að við getum aldrei haft Stjórnarráð af þeirri stærðargráðu að það geti alltaf mætt öllum óvæntum áföllum sem upp kunna að koma, það er ekki raunsætt. Það kann að vera að ráða þurfi norskan hernaðarsérfræðing eða eldflaugasérfræðing eða ég veit ekki hvað ef einhverjar slíkar krísur koma upp, við sjáum það ekki endilega fyrir.

Hvað varðar almenn sjónarmið, sem koma fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, get ég tekið undir það að almennt eigi að stækka einingarnar og efla þær. Ég hef reyndar áhyggjur af því að eitt ráðuneyti verði jafngríðarstórt í hlutfalli við önnur sem leiðir af sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis með helming ríkisútgjalda, svona þar um bil — eitt ráðuneyti með helming ríkisútgjalda. Ég velti fyrir mér hvort jafnvægið milli þess ráðuneytis og annarra ráðuneyta verði ekki eitthvað skrýtið, eitt risaráðuneyti á útgjaldahliðinni meðan önnur eru miklu smærri og þar af leiðandi meira veikburða.

Ég velti því líka fyrir mér hvort eitt svona risaráðuneyti geri það ekki að verkum að það dragi úr pólitískri yfirsýn þess sem þar fer með ábyrgð og völd, hvort það geti ekki leitt til þess að embættismenn á einstökum sviðum verði meira sjálfráða og hið pólitíska vald hafi minna um ákvarðanir að segja en áður. Það eru slíkar hliðar á þessum málum líka sem við höfum kannski ekki rætt nægilega vel hér.

Almennt styðjum við breytingar í þessum efnum og leggjum eindregið til að farið (Forseti hringir.) verði út í þær að undangenginni nauðsynlegri, eðlilegri og faglegri undirbúningsvinnu.