138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að hæstv. forsætisráðherra gat ekki verið viðstödd umræðuna nú eftir þingflokksfundahlé en ég fór jafnframt fram á það við starfsmann þingsins að einhverjir aðrir ráðherrar yrðu viðstaddir. Er hægt að verða við því? Þetta snertir svo marga þætti stjórnskipunarinnar.

(Forseti (SF): Forseti getur upplýst að hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, mun vera viðstaddur og kemur hér væntanlega um hæl.)

Hann er þá væntanlegur. Ég hef ræðu mína í von um að hann sé kominn í hús því þetta snertir mjög stjórnskipulag ríkisins og það er augljóslega sanngjörn krafa að fara fram á að a.m.k. einn fulltrúi framkvæmdarvaldsins sitji í ræðusal. Helst hefði ég nú viljað hafa þá alla tíu, eftir breytingar.

Eins og fram hefur komið ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. Í ræðustól Alþingis hefur verið farið yfir það að málið var til meðferðar í allsherjarnefnd og hlaut þar ekki mikla samstöðu þrátt fyrir loforð meiri hlutans um að það yrði sett í samningafarveg í sumar og rætt í sátt. Meðal annars gaf hæstv. forsætisráðherra það loforð í vor þegar þingið fór í tímabundið frí að þessi mál yrðu rædd milli allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi. Það var ekki gert. Við erum komin með frumvarpið núna en að vísu ekki nema hálft. Meiri hlutinn ákvað að taka helminginn af frumvarpinu út m.a. vegna andstöðu og gagnrýni um skort á samráði

Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu. Þetta var tekið fyrir í allsherjarnefnd eins og fram hefur komið. Fyrir þingflokksfundahlé talaði fulltrúi 1. minni hluta um að málið væri afar illa unnið. Ég er á þeirri skoðun líka. Ég spurði t.d. í allsherjarnefnd hvort hin nýja lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu, sem skyndilega var sett á stofn án þess að nokkur vissi — þar er búið að ráða í þrjú stöðugildi án auglýsinga — hefði lesið frumvarpið yfir. Svo var ekki. Þess vegna finnst mér mjög bágt og slæmt að hæstv. forsætisráðherra sé ekki hér svo ég hefði getað spurt hana af hverju frumvarpið var ekki sett beint til þeirrar stofnunar. Eins og flestir vita hef ég ásamt flestum þingmönnum Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar lagt fram frumvarp um að stofna lagaskrifstofu Alþingis. En þá er brugðið á það ráð að stofna þessa skrifstofu í forsætisráðuneytinu. Það er nú öllu verra ef hún fær ekki nein verkefni því það hefði verið alveg upplagt að frumvarpið færi þar í gegn og hefði þá kannski orðið eitthvað betra í meðförum hennar. Ég velti fyrir mér hvert sé hlutverk þessarar lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu fyrst í gegnum hana fara ekki einu sinni þau frumvörp sem hæstv. forsætisráðherra leggur sjálf fram. Ég verð líklega að leggja fyrirspurn fyrir þingið og spyrja hæstv. forsætisráðherra að því þegar vel stendur á hjá henni.

Það er mikið vísað í þá skýrslu sem forsætisráðherra lét vinna um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir . Það var stofnaður starfshópur í kringum þessa spurningu sem skilaði af sér í maí 2010. Meira og minna öll frumvarpsgerð og tillögur að lagasetningu sem koma frá forsætisráðuneytinu og stjórnsýslunni og framkvæmdarvaldinu virðast byggja á þeirri skýrslu. Mér finnst það afar einkennilegt úr því að þingmannanefnd sem á að fjalla um rannsóknarskýrslu Alþingis er að ljúka störfum á næstu dögum og hefur örugglega unnið gott starf. Það er verið að taka fram fyrir hendurnar á þeirri þingmannanefnd og lögum breytt áður en nokkuð kemur út úr því hvað nefndin leggur til, eins og hennar hlutverk er en ekki nefndar sem sjálf hæstv. forsætisráðherra skipaði í sumar. Niðurstöðum starfshópsins — þessu er tekið alveg eins og hvítu plaggi og sjálfsagt er einhver samhljómur með þessu og þeirri vinnu sem þingmannanefndin kemst að. Ég gríp hér niður, með leyfi forseta:

„Meginniðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi: Að hinn faglegi grundvöllur stjórnsýslunnar sé veikur vegna ómarkvissra pólitískra inngripa í störf hennar, persónutengsla og ónógar áherslu á faglega starfshætti.“

Þetta er í fyrstu niðurstöðum nefndarinnar. En með hvað er farið fram hér? Frumvarpið er mjög ómarkvisst pólitískt inngrip. Fyrir utan persónutengslin sem hér er vísað í og áhersluna á ófaglega starfshætti — þetta er það sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur ekkert breyst. Það er hvergi tekið tillit til þessa í vinnu framkvæmdarvaldsins frá því hrunið varð. Ég minni á að hrunið varð á vakt Samfylkingarinnar. Haldið er áfram með bundið fyrir bæði augun. Þetta er ekki fyrsta lagafrumvarpið sem ríkisstjórnin þarf að taka, klippa niður, hársnyrta, setja í rúllur eða jafnvel fjarlægja af þingi vegna þess að svo illa er staðið að hlutunum.

Mig langar líka, áður en ég les upp úr nefndarálitinu þar sem ég er framsögumaður 2. minni hluta allsherjarnefndar, að minna á svar sem forsætisráðherra gaf hv. þm. Eygló Harðardóttur varðandi ráðherra og tímabundnar ráðningar í ráðuneytunum. Búið er að moka inn í ráðuneytin alls konar fólki án auglýsinga og ég mun koma betur að því þegar ég les upp úr nefndarálitinu. Svarið var lagt fram í sumar. Á síðasta ári voru tveir ráðnir í forsætisráðuneytið án auglýsingar, fimm í dómsmála- og mannréttindaráðuneytið án auglýsingar, fimm í félags- og tryggingamálaráðuneytið, sex í fjármálaráðuneytið, tveir í iðnaðarráðuneytið, fjórir í mennta- og menningarmálaráðuneytið, tveir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og einn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Eru þetta merki um fagleg vinnubrögð? Er þetta merki um að verið sé að skera niður í stjórnarráðinu? Nei, því miður. Svona heldur þetta áfram.

Ráðningamálin hjá ríkisstjórninni eru alveg hreint til skammar. Ég ætla að minna á það að ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að því á vordögum hvað væru margir starfsmenn í ráðuneytunum sjálfum. Svarið sem barst var 511 starfsmenn árið 2009. (Gripið fram í.) Eftir þá sem ráðnir hafa verið án auglýsinga árið 2010 er nú þegar um að ræða tæplega 40 einstaklinga. Það er talað um sparnað enda voru heildarútgjöld ráðuneytanna á síðasta ári, árið 2009, tæpir 6 milljarðar. Hæstv. utanríkisráðherra — tæpir 6 milljarðar. Ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra átti af því rúman 1,1 milljarð. Það er hægt að gera mikið fyrir þessar upphæðir. Ég minni líka á að öflugan almennan vinnumarkað þarf til svo hægt sé að halda uppi svo útblásnu kerfi eins og nú er. 22.000 störf á almenna vinnumarkaðnum hafa tapast og ríkisstjórnin sér enga ástæðu til þess að skera nokkurs staðar niður.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu að hugsanlega væri hægt að spara 120 milljónir ef allar forsendur mundu ganga eftir varðandi brotthvarf starfsfólks. Ég minni á það að þegar rekstrarkostnaðurinn er tæpir 6 milljarðar er þetta einungis 2% af þeirri heildarupphæð. Samt er verið að fara fram á það í ráðuneytunum að hið opinbera skeri niður um 10%. Lágmarkskrafan er 5%. Þarna er verið að sameina ráðuneyti í hagræðingarskyni, er okkur sagt, og hagræðing í ríkisrekstri er augljóslega í markmiðssetningu laganna. Náð er 2% niðurskurði en þær tölur eru frá því áður en ríkisstjórnin kippti út ákvæðinu um að gera sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytið að einu ráðuneyti. Sparnaðurinn er því langtum minni.

Áfram er fjallað um þennan sparnað í greinargerð fjármálaskrifstofunnar. Það er sagt: „má reikna með lækkun“ og „að öllu jöfnu má áætla“ og því um líkt þannig að það er ekkert fast í hendi hvað sparast. Hugsanlegur sparnaður á næstu fimm árum er reiknaður upp í 360 milljónir. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt því það er fyrst og fremst ætlast til að þegar skorið er niður í ráðuneytum að hagræða í rekstri. 360 milljónir eru rúmlega 5% af heildarútgjöldum ráðuneytanna. Fjárlagaskrifstofan hefur reiknað sig upp í það til að geta rökstutt að þetta eigi að vera svona.

Svona er þetta nú allt saman. Það er enginn árangur af þessu frumvarpi. Í því segir að allir verði endurráðnir og gert ráð fyrir að öllum starfsmönnum verði boðið starf í sameinuðu ráðuneytunum. Fækkað er í yfirstjórninni, ég viðurkenni það. Þarna sparast laun þriggja ráðherra og líklega þriggja aðstoðarmanna og þriggja bílstjóra. En meiri sparnaður er nánast enginn sjáanlegur því gera á þá aðila sem vitað er að missi vinnuna að starfandi sérfræðingum í ráðuneytinu.

22.000 störf hafa tapast á almenna vinnumarkaðnum. Mikið af því fólki er afar fært enda mikil ásókn í íslenskt starfsfólk erlendis. Það er að verða mikill spekileki í þjóðfélaginu. Ekki dettur ríkisstjórninni í hug að auglýsa nokkurt einasta starf. Á meðan skorið er niður og fækkað í ráðuneytunum var um síðustu helgi birt auglýsing í dagblöðunum þar sem auglýst er eftir nýjum ráðuneytisstjóra í viðskipta- og efnahagsráðuneytinu. Þetta eru gamaldags og úrelt vinnubrögð. Það verður að taka þetta föstum tökum. Formaður allsherjarnefndar sagði í morgun að samt væri ekki hægt að segja upp starfsfólki sem ynni hjá opinbera geiranum. Það er einfaldlega rangt því samkvæmt lögum um laun opinberra starfsmanna er litið á það sem uppsögn þegar starf er lagt niður. Um leið og störf eru lögð niður er jafnframt gerður starfslokasamningur við viðkomandi starfsmann eða viðkomandi getur litið á það sem uppsögn og getur tekið endurráðningu ef það stendur til boða.

Mig langar aðeins til að koma inn á ummæli sem fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra lét hafa eftir sér í Ríkisútvarpinu 3. september síðastliðinn. Hún þurfti því miður að víkja, einn okkar færasti ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn. Henni var gert að víkja, ef til vill vegna afglapa annarra ráðherra. Í viðtalinu sagðist hún telja að með sameiningu ráðuneyta, eins og lagt er til í frumvarpinu, og gera þau svona risastór þá aukist völd ráðuneytisstjóra, ráðgjafa og embættismanna innan stjórnsýslunnar. Það er ekki það sem við viljum. Pólitíkin verður að bera ábyrgð á starfi ráðuneytanna, ekki embættismenn. Það er orðið eitthvað mikið skakkt allt saman hér á Íslandi, hvernig allt er hugsað. Ég hef stórkostlegar áhyggjur af löggjafanum og hvað Alþingi er orðið máttvana gagnvart risunum hjá framkvæmdarvaldinu, samanber það að framlög til Alþingis losa 1 milljarð á meðan framkvæmdarvaldið tekur til sín 6 milljarða. Vald framkvæmdarvaldsins er alltaf að aukast meira og meira, þetta er eins og óseðjandi hungraður úlfur, það þarf alltaf meiri völd, meiri völd. Lagaskrifstofa Alþingis er komin upp í forsætisráðuneytið. Það var ekki það sem við vorum að biðja um. Við báðum um að Alþingi yrði styrkt en ekki framkvæmdarvaldið. Svo einfalt er það.

Nú ætla ég að fara aðeins yfir í nefndarálitið sem ég skilaði. Eins og ég kom inn á áðan er ég talsmaður 2. minni hluta allsherjarnefndar. Með leyfi forseta, stendur þar:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem fela í sér fækkun ráðuneyta úr tólf í níu. Er það mikið fagnaðarefni því að brýnt er að ríkið að dragi saman seglin og spari í rekstri.“

En eins og áður hefur komið fram og ég sagði áðan námu útgjöld ráðuneytanna tæplega 6 milljörðum kr. á árinu 2009. Við framsóknarmenn fögnum því mjög að verið sé að draga saman í ríkisrekstrinum, að það sé verið að fækka ráðuneytum. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í flokksþingssamþykktum okkar, en við höfum líka bent á að þetta verður að gera að yfirveguðu ráði og af vissri skynsemi.

Í frumvarpinu kemur fram að öllum starfsmönnum ráðuneytanna verður boðið áframhaldandi starf eins og ég fór yfir áðan. Þar voru 511 starfsmenn árið 2009 og svo hefur fjölgað nú um tæplega 50 í störfum sem eru ekki auglýst. Ég spurði starfsmann forsætisráðuneytisins sem kom á fund allsherjarnefndar hvað yrði um alla tímabundnu ráðningarsamningana sem þessir aðilar eru með sem eru ráðnir án auglýsinga tímabundið inni í ráðuneytin. Fá þeir fastráðningu í nýjum ráðuneytum? Hvað verður um þessa samninga þegar yfirfærslan á sér stað? Viðkomandi starfsmaður gat ekki svarað þessu því að enginn hafði hugsað um hvað þetta þýddi raunverulega. Þetta er eitt sem við þurfum að athuga því að útgjaldaaukinn verður mun meiri. Það verður mjög fróðlegt að sjá þegar árið 2010 verður gert upp hvort það verður útgjaldaauki eða ekki eða hvort ríkisstjórninni er alvara með því að spara í ríkisrekstri. Nú er liðið langt á árið 2010 og það verður eins og ég segi fróðlegt að sjá hvernig hefur tekist til.

Skýrari verkaskipting ráðuneytanna er alveg nauðsynleg og það er mjög skynsamlegt að sú skipting taki tillit til samfélagsins og atvinnuhátta hverju sinni. Það hefur verið gagnrýnt mjög að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það var annað sem framkvæmdarvaldið þurfti að draga til baka í þessu frumvarpi, það var að hér átti að vera umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Formaður nefndarinnar var spurður um það í allsherjarnefnd hvers vegna fara ætti í þessa nafnabreytingu þegar ekki væri verið að flytja nein verkefni yfir til umhverfisráðuneytisins og þá var fallið frá þeirri breytingu og það er ekki tekið upp í þessari umferð og heitir umhverfisráðuneytið eftir sem áður umhverfisráðuneyti.

Það sýnir líka á hinn bóginn aftur hve þetta frumvarp er illa unnið fyrst hægt er bara á einum fundi að skipta um skoðun og bakka og koma svo með breytingartillögu inn í þetta. Ég þreytist ekki á því að tala um hve þetta er illa unnið og í raun og veru mikil fljótaskrift á þessu.

Ég ætla að grípa niður í nefndarálitið á ný:

„Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skiptar skoðanir séu í þjóðfélaginu um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið annars vegar og iðnaðarráðuneytið hins vegar og sameina í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Hafa ýmis samtök er málið varðar mótmælt þessum áformum. Þrátt fyrir að einnig hafi verið áformað að setja á fót stýrihóp fyrir samþykkt frumvarpsins, með þátttöku ráðherra, verkefnisstjórnar með þátttöku ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna ráðuneytanna, hefur það ekki verið efnt. Segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu: „Mikilvægur þáttur vinnunnar verður að ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta. Er þar sérstaklega átt við heildarsamtök svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félag forstöðumanna og sveitarfélögin. Þá verður þingflokkum boðið að tilnefna tengiliði til að fylgjast með vinnunni og koma sínum sjónarmiðum að. Þessir aðilar munu einnig fylgja því eftir að fram fari allsherjarendurskoðun á þeim verkefnum sem viðkomandi ráðuneyti sinna og þeim stofnunum sem undir þau heyra.““

Það er þetta sem verið er að benda á, þetta samráð hefur ekki verið framkvæmt. Eða eins og einhver sagði á allsherjarnefndarfundi, gott ef það var ekki formaður allsherjarnefndar, hann leiðréttir mig þá, „samþykkja lögin fyrst og semja svo“. Samþykkja lögin fyrst á Alþingi og fara svo í samráð. Þetta er eins og í auglýsingunni frægu: „Þú tryggir ekki eftir á.“ Það er ekki þetta sem við vorum að fara fram á.

Samráðsviljinn er alveg skýr í frumvarpinu, enda örugglega upphaflegur texti settur inn með það að markmiði að ná sátt um þetta mál, ég efast ekkert um það. En efndirnar eru engar og í raun og veru fór það svo að ríkisstjórnin lét undan þeim þrýstingi að hætta við að fara í gegn með atvinnuvegaráðuneytið núna.

Ég er hér með tvö fylgiskjöl með þessu nefndaráliti. Þegar verið var að ræða málið í nefndinni fór ég fram á að það yrði útskýrt og sett niður á blað hve margar stofnanir mundu heyra undir hvert ráðuneyti eftir breytingu og hve margir starfsmenn væru í undirstofnunum. Allsherjarnefnd fékk sent frá forsætisráðuneytinu hvaða stofnanir heyrðu undir hvert ráðuneyti en það var ekki hægt að verða við þeirri ósk hve margir ríkisstarfsmenn væru í hverri stofnun þannig að bæði nefndarmenn og aðrir áttuðu sig á því hvað raunverulega lægi þarna undir. Það segir mér að þetta frumvarp er algjörlega vanbúið. Það er hvorki tekinn saman fjöldi opinberra starfsmanna undir hverju ráðuneyti alveg niður í undirstofnanir, sem telja rúmlega 200 ríkisstofnanir, né neinir útreikningar á því hver launakostnaður undir hverju ráðuneyti er.

Þetta finnst mér mjög miður, því að eins og kemur fram í svarinu frá forsætisráðuneytinu heyra t.d. 55 stofnanir undir innanríkisráðuneytið. Það eru ekki nema þrjár stofnanir sem heyra undir forsætisráðuneytið. Það eru 38 stofnanir sem heyra undir velferðarráðuneytið. Það eru einungis tvær stofnanir sem heyra undir utanríkisráðuneytið en samt tekur utanríkisráðuneytið til sín rúmlega 1,1 milljarð í ríkisútgjöldum. Það hefur engin rannsóknarvinna farið fram á þessu, ekki nokkur. Þessu frumvarpi hefur verið skellt fram alveg hráu, enda sést það, hér er fylgiskjal. Ég hvet þingmenn til að kíkja í nefndarálitið.

Að auki hefur hið opinbera gefið út skýrslu eða rit sem heitir Rit um sameiningu ríkisstofnana, sem fjármálaráðuneytið gaf út í desember 2008. Þar er að finna í viðauka 3 gátlista við mat á verkefnum þegar t.d. opinberar stofnanir eru settar á stofn eða samruni á sér stað hjá ríkisstofnunum. Í viðauka 4 er svo dæmi um framsetningu samrunaáætlunar.

Það var fjallað um það hér fyrr í dag að ekki hefði verið farið eftir handbók Stjórnarráðsins um samningu lagafrumvarpa frá 2007 þegar þetta frumvarp var samið. Það er alveg hárrétt. Það hefur greinilega ekki verið farið eftir henni. Ég vil líka benda á að framkvæmdarvaldið fer ekki einu sinni eftir þeim tilmælum sem það beinir til undirstofnana sinna um samruna og sameiningar sem finna má í þessu riti. Þessi vinnubrögð eru alveg til skammar. Þarna er að finna leiðarvísi um það hvernig á að fara að þessu, því að ekkert er verra fyrir starfsmenn en akkúrat þegar menn hafa sín hvora löppina í heitu og köldu vatni og svo er verið að hætta við og draga hluti til baka og setja þá fram á ný.

Það er komið að leiðarlokum í fyrstu umferð hjá mér. Ég er búin að koma fram með það helsta sem er að finna í nefndarálitinu. Ég gagnrýni þetta frumvarp mjög og hvet framkvæmdarvaldið til að vinna frumvarpið skilyrðislaust betur og fara eftir þeim reglum sem það sjálft setur, því að þetta er ekki fyrsta og verður örugglega ekki seinasta frumvarpið sem kemur hér inn illa unnið og varla unnið. Mér skilst að frumvarpið eigi að fara aftur til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. og þá getum við kannski rætt þetta betur. Það vöknuðu spurningar um hvert forræði hvers ráðherra á hverju ráðuneyti mundi verða eftir þetta. Er þá vísað til þess hver eigi að hafa forustuna þegar þetta frumvarp verður að lögum 1. janúar 2011. Hver tekur forustuna t.d. fyrir þjóðina í atvinnuvegamálaráðuneytinu? Það stendur hér í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 2, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans er almennt breið sátt um velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið og því mikilvægt að hefja vinnu við stofnun þeirra nú þegar þannig að hægt verði að ná fram sem fyrst þeirri miklu hagræðingu sem fyrir er séð í tengslum við málaflokka og stofnanir innanríkis- og velferðarráðuneyta.“

Þarna kemur þetta fram en hver á að taka forustuna í atvinnuvegamálaráðuneytinu? Ég sé að formaður allsherjarnefndar, Róbert Marshall, er í salnum og væri mjög æskilegt að fá að heyra hans sýn á þessa spurningu, því að þessum spurningum verður að svara. (Gripið fram í.) Þessum spurningum verðurðu líka að svara: Hvað verður um auðlindir þjóðarinnar og hvenær ætlar ríkisstjórnin að halda áfram með þetta mál, því að það stendur í stefnuskrá Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að fækka eigi ráðuneytum niður í níu? Hvenær verða næstu skref tekin? Hvenær verður látið til skarar skríða að stofna atvinnuvegamálaráðuneytið? Hvenær verður látið til skarar skríða að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneytið?

Mér finnst alveg sjálfsagt að þingmenn fái að vita það sem og þjóðin, því að þau mál brenna á þjóðinni. Jafnframt vil ég beina því til ríkisstjórnarinnar og spyr að því: Verður farið í eitthvert samráð við hagsmunaaðila þeirra sem undir ráðuneytin falla, iðnaðarráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið? Þetta eru spurningar sem brenna mjög á fólki. Sjáum við þetta fyrir okkur á næstu sex mánuðum eða ætlar ríkisstjórnin að geyma þetta þar til hún hefur kannski hrökklast frá völdum? Eða hvenær er að vænta næstu skrefa í þessu máli og hvenær verður málið fullklárað? Ég minni aftur á að þær sparnaðartillögur sem liggja hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins miðast allar við það að breytingarnar gangi í gegn allar í einu. Þá yrði sparnaðurinn 120 milljónir í launakostnaði, sem er enn minni núna og er kannski hægt að helminga það. Þá er þetta komið niður í 1% af heildarútgjöldum Stjórnarráðsins ef hægt er að helminga þá tölu.

Ég læt þessu lokið hér og nú. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka og að vanda sig til framtíðar þegar lögð eru fram frumvörp svo við þurfum ekki að standa í svona hártogunum á Alþingi. Ég hef áhyggjur af löggjafanum, ég tek það fram aftur, ég hef áhyggjur af því hve löggjafinn er vanmáttugur til að takast á við framkvæmdarvaldið þegar það er orðið svona ægistórt og sýgur til sín allt vald eins og hér er byggt á og við sjáum í þessu frumvarpi.