138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa staðið upp svona snemma, en ég hélt að það ætti það sama við um hæstv. ráðherra og hv. þingmenn hér í ræðustól að þeim væri úthlutaður tími eftir því sem klukka í ræðustól segir til um. (Gripið fram í.)

Ræða mín og andsvör snerta viðkvæma strengi hjá hæstv. utanríkisráðherra og ekki í fyrsta sinn. Einhvern veginn verður hann nú alltaf svolítið tens þegar hann fer í andsvör við mig, en ég hef gaman af því. (Utanrrh.: Skelfilega gaman af því.)

Ég spyr ríkisstjórnina, ég spyr forsætisnefnd Alþingis: Til hvers var verið að kjósa þingmannanefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar? Hvers vegna er ekki beðið eftir niðurstöðum þingmannanefndarinnar varðandi það hvað gerðist í hruninu? Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Nefndin er að skila af sér á næstu dögum og það er farið hér með skýrslu úr forsætisráðuneytinu eins og hún sé heilagur sannleikur. Hér er verið að setja lög áður en þingmannanefndin kemst að niðurstöðu. Þessi vinnubrögð eru til skammar. Þau eru álíka mikið til skammar og þegar hæstv. forsætisráðherra er sífellt að gefa út (Forseti hringir.) hvað hún vill sjá í nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaþing á að setja en ekki hún. (Utanrrh.: Er ekki skoðanafrelsi?)