138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall, formanni allsherjarnefndar, kærlega fyrir það að koma hér í andsvar við mig. Ekki á nokkurn hátt hef ég skipt um skoðun á þessu máli. Ég benti hins vegar hv. formanni og allsherjarnefnd allri á það að samkvæmt reglugerðarákvæði væri hægt að fækka ráðuneytum án þess að koma með málið fyrir þingið, en ríkisstjórnin kýs að fara með þetta í gegnum þingið vegna þess að það er ekki meiri hluti fyrir því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hjá samstarfsflokknum, þannig að það verður að fara með málið í gegnum þingið til þess að ná meiri hluta. Þetta er svo augljóst. Ég hef síður en svo skipt um skoðun í málinu.

Hvað varðar spurningar hjá þingmanninum, hvað ég leggi til, hvað ég vilji sjá, hvaða starfsmönnum eigi að segja upp og hversu mörgum. Virðulegur forseti. Því miður þá hef ég engar efnislegar forsendur til að gefa mér það, því ég hef ekki aðgang að þeim skjölum eða þeim trúnaðarupplýsingum sem liggja í ráðuneytinu. Ég veit að 511 starfsmenn störfuðu í ráðuneytunum árið 2009. Ég veit að 2010 hafa tæplega 40 verið ráðnir í ráðuneytin án auglýsingar. Þetta er það sem ég hef. Þetta er það sem við þingmenn náum með töngum í gegnum þingið þegar við leggjum fyrirspurnir fyrir ráðherra. Við höfum ekki forsendur til þess að koma með tillögur þegar svona innanbúðarmál eru hér á borði Alþingis, því miður. Ég vildi gjarnan gera það.

Ég hef sagt það jafnframt hér og sagði það áðan að það er stefna Framsóknarflokksins að fækka ráðuneytum. Það er hreinlega galið að hafa tólf ráðherra og tólf ráðuneyti hjá 320 þúsund manna þjóð. (Gripið fram í.) Algjörlega galið. (Gripið fram í.) Og fyrst hann talaði um að ég hefði talað vel um fyrrverandi ráðherra, Rögnu Árnadóttur, þá hef ég alltaf tekið upp hanskann fyrir hæstv. fyrrverandi ráðherra Rögnu Árnadóttur, því hún var rjómi þessarar ríkisstjórnar.