138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög athyglisvert að hlusta á orðaskipti hér. Því miður er hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á þessu máli, ekki á staðnum. En hér er hins vegar hæstv. utanríkisráðherra en ekki aðrir hæstv. ráðherrar, ekki velferðarráðherrann nýi. (Gripið fram í.) Það vakti athygli okkar að (Gripið fram í.) hæstv. utanríkisráðherra, sem alla jafna er eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem er í góðu skapi, var önugur hér áðan. Það kemur til af góðu. Það kemur til af því að hæstv. utanríkisráðherra er með samvisku og er með mikið samviskubit yfir þessu máli og það er mjög skiljanlegt. (Gripið fram í.)

Því miður er þetta mál mjög dæmigert fyrir ríkisstjórnina. Það eru allir sammála um að bæta má stjórnsýsluna. Það eru allir sammála um það sem til þekkja að auka þarf stefnumótun hjá hinu opinbera, sérstaklega í ráðuneytunum. En það kemur þessum pólitísku hrossakaupum ekkert við, ekki neitt. Allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum á Íslandi þekkja hvaða pólitísku hrossakaup eru í gangi. Hverjir verða helst fyrir þeim, virðulegi forseti? Það eru því miður þeir sem þurfa að njóta heilbrigðisþjónustunnar og félagslegu þjónustunnar.

Ég er með nefndarálit frá meiri hlutanum þar sem þeir fara yfir það við hverja þeir töluðu. Hér er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir búin að fara yfir það að ekkert samráð var í sumar eins og lofað hafði verið, ekkert slíkt. Það er ekki einu sinni búið að senda þetta í fagnefndirnar í þinginu. Látum það liggja milli hluta. Við hverja tala menn þegar þeir eru að fara faglega yfir þetta, virðulegi forseti? Jú, Félag löggiltra endurskoðenda. Hér er líka Landssamband íslenskra útvegsmanna, Bændasamtökin og ýmsir aðilar, fullt af góðum aðilum.

Ég verð að viðurkenna að ég fór og skoðaði þetta: Hvar eru þeir sem eiga að gæta hagsmuna þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda í nýja risaráðuneytinu? Hvar er Öryrkjabandalagið? Hvar eru heilbrigðisstéttirnar? Ég ætla ekkert að telja þær allar 30 upp, kannski bara hjúkrunarfræðingana eða Læknafélagið. Ég nefni þessa aðila vegna þess að ég hringdi í þá í dag og spurði: Hvar er umsögnin ykkar?

Virðulegi forseti. Þeir fengu ekki tækifæri til þess. (VigH: Nei.) Þeir sem eiga að gæta hagsmuna þeirra sem minnst mega sín, þeir sem eiga að halda utan um þjónustuna í risaráðuneytinu; það var ekki beðið um sjónarmið þeirra. Nei, virðulegi forseti, norræna velferðarstjórnin talaði við löggilta endurskoðendur. En Öryrkjabandalagið — nei, það þarf ekkert að heyra ofan í þau samtök. Hvað þá heilbrigðisstarfsmenn. Það á bara að skella saman risaráðuneyti, vera snöggir að því og ræða það eins lítið og mögulegt er, svíkja allt — allt um samráð — og bara drífa þetta af. Þess vegna er hæstv. utanríkisráðherra með samviskubit, vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra er með samvisku. Hann veit að hér er (VigH: Er hann með samvisku?) skelfilegt mál í gangi. Já, virðulegi forseti, ég fullyrði það. (Utanrrh.: Ég ber af mér sakir …)

Ef maður skoðar frumvarpið, sem var afgreitt í nefnd með miklum hraða síðasta vor, sjá menn að allt það sem við gagnrýndum er í þessu. Við höfum sagt: Við þurfum að vanda okkur betur hér á þinginu. Við höfum sagt: Það þarf að gefa sér þann tíma sem þarf, það þarf fagleg vinnubrögð.

Og vitið þið hvað stendur í frumvarpinu, virðulegi forseti? Hafið þið lesið kaflann, sem er nokkrar línur, um risaráðuneytið? Þar segir t.d., sem er nú kannski helsti punkturinn, ástæðan fyrir því að sameina er sú að samþætta þarf velferðarúrræði, t.d. heimahjúkrun og heimaþjónustu. Virðulegi forseti. Erum við ekki sammála um það? Er hæstv. utanríkisráðherra ekki sammála því að við þurfum að gera það? Það er allt í lagi að hæstv. utanríkisráðherra kalli bara úr sæti sínu. (Gripið fram í.) Ég fæ ekkert svar frá hæstv. utanríkisráðherra en ég er nokkuð sannfærður um það — ég veit að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill samþætta þessa þjónustu, er það ekki? (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það var gert 2008! Það þýðir að þeir sem skrifuðu þetta vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Þetta er ekki smámál, þetta er risamál. Gert 2008. Þetta er nú faglegi undirbúningurinn.

Og alltaf vísa menn hér í skýrsluna — skýrsluna með greini, virðulegi forseti. Hver skyldi hafa samið skýrsluna? Það er skýrsla sem á að taka á málum út af bankahruninu. Virðulegi forseti, leiðrétti mig nú einhver stjórnarliða ef rangt er eftir haft: Var ekki niðurstaðan sú að við ættum að styrkja þingið? Var það ekki þannig? Þess vegna settum við þingmannanefnd til þess að taka á þessu. Er þessi skýrsla frá þingmannanefndinni? Nei, virðulegi forseti. Var þetta kannski hópur sem þingmannanefndin setti á laggirnar? Nei, virðulegi forseti, hún á eftir að skila. Bíddu, hver setti þennan hóp á laggirnar? Jú, það var framkvæmdarvaldið, sjálfur hæstv. forsætisráðherra setti eftirlætisfagmanninn sinn, dr. Gunnar Helga Kristinsson, í forustu og hann kláraði þetta á augabragði, svo að maður noti nú orðalag sem er velþekkt hér úr þingsal. Svo sitja menn og vísa í þessa skýrslu hvað eftir annað. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa almennt lesið hana. Ég efast ekki um að ýmislegt ágætt stendur í henni, en það er verið að brjóta öll prinsippin sem menn lögðu af stað með.

Síðast í dag héldu stjórnarliðar langar ræður um að vinnubrögðin væru að breytast hér á þinginu, nú væri þingið orðið sterkt, tæki sjálfstætt á og eftirlit væri faglegt. En þetta, virðulegi forseti, er gert á einhverju hundavaði. Það er skellt á einhverjum hóp undir forustu vildarvina ríkisstjórnarinnar og settur faglegur blær yfir þetta allt saman. Svo illa vill hins vegar til að þegar menn eru að semja frumvarpið eru þeir ekkert inni í málunum sem er vægast sagt pínlegt. Ég man ekki eftir því að hafa séð svona vinnubrögð í þinginu áður. Þetta er með þvílíkum eindæmum.

Virðulegi forseti. Það er hins vegar ein manneskja sem þekkir þetta nokkuð vel, mér vitanlega. Hér er hæstv. utanríkisráðherra sem þekkir söguna jafnvel betur en flestir. Kannski er ég að gleyma einhverjum en ég man í fljótu bragði bara eftir einum einstaklingi sem hefur bæði verið ráðherra og ráðuneytisstjóri, í það minnsta í seinni tíma sögu. Ég held að við getum verið sammála um að með slíka reynslu vita menn eitthvað um hvað þeir eru að tala. Fráfarandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, er sú manneskja. Hún fer yfir þetta og ræðir um takmörk, með leyfi forseta, svo að ég vitni í viðtal við hana:

„Það eru takmörk fyrir því hvað einn maður eða kona getur sett sig inn í mörg mál. Ráðherra verður líka að vera upplýstur. Hann þarf að vita hvað það er sem hann er að taka ákvörðun um og eftir því sem málaflokkarnir verða stærri og meiri þeim mun vandasamara verður það. En ekkert ómögulegt. Ég bara bendi á þetta, að það eru svona líka kostir og gallar við þetta.“ Freyr Eyjólfsson spyr þá: „Ertu að segja að með fækkun ráðuneyta séu völd ráðuneytisstjóra að aukast?“ Ragna Árnadóttir: „Já, völd, já, já. Og völd bara ráðuneytisstjóra, embættismanna og ráðgjafa ýmiss konar. Það er óhjákvæmilegt.“ — Í risaráðuneytinu mun það auðvitað gerast.

Förum yfir hlutföllin því hér hafa menn staðið og sagt: Þetta eru svo lítil ráðuneyti, við þurfum að efla þau og stækka. Gott og vel. Eru menn þá ekki að taka minnstu ráðuneytin og sameina þau, virðulegi forseti? Það hlýtur að vera. Er það ekki þannig? Nei, ekki hjá þessari ríkisstjórn. Hún tekur stærstu ráðuneytin og sameinar þau. Litlu einingarnar sem eiga að vera svo mikið vandamál eru ekki teknar, heldur er langstærstu ráðuneytunum skellt saman. Núna er til ráðuneyti sem með óbreyttu nafni mundi heita heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn 2008, sama hvað henni finnst um það, þá var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skipt upp samkvæmt ósk hennar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þótti vera of stórt og tryggingamálin voru færð yfir til félagsmálaráðuneytisins, þar sem þau áttu víst betur heima. Núna mun nýr heilbrigðisráðherra fá trygginga- og félagsmálin. Hann verður með 52% af ríkisútgjöldunum ef við tökum vaxtagjöldin frá. Hér eru menn, virðulegi forseti, að auka völd sérfræðinga og embættismanna.

Eins og Ragna Árnadóttir bendir réttilega á þá eru takmörk fyrir því hvað menn geta komist yfir. Þetta er gert á þeim tíma sem nýr hæstv. ráðherra, Guðbjartur Hannesson, þarf að skera gríðarlega niður. Hann hyggst gera skipulagsbreytingar á heilbrigðissviðinu og síðan er allt hitt eftir sem er ekki lítið.

Til að setja þetta í samhengi, virðulegi forseti, þá eru forsætisráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið með innan við 1 og 2% af ríkisútgjöldum. Leggur einhver til að sameina þessi litlu ráðuneyti? Nei, ekki þessi ríkisstjórn, hún fer ekki þangað.

Ég las í skýrslu starfshóps forsætisráðherra undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar sem talar mikið um að grundvöllur stjórnsýslunnar sé veikur og það þyrfti að leggja meiri áherslu á faglega starfshætti. Hann hefur áhyggjur af persónutengslum o.s.frv. Sá fræðimaður blessaði það alveg sérstaklega þegar einn ráðherra hótaði að reka embættismann fyrir það að sýna samviskusemi og nákvæmni í störfum sínum. Væntanlega vann hann þessa skýrslu fyrir hæstv. forsætisráðherra á sama tíma. Hann talar m.a., eða í það minnsta hér í frumvarpinu, ég veit ekki hvort það kemur beint frá fræðimanninum, um formfestuna. Árið 2007 var viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og félags- og sveitarstjórnarmálaráðuneytinu skipt upp. Úr þessu varð sérviðskiptaráðuneyti, sériðnaðarráðuneyti, sérstakt heilbrigðisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðuneyti. Sömuleiðis voru ferðamálin færð yfir í iðnaðarráðuneytið. (Utanrrh.: Það var nú gott.) Hæstv. utanríkisráðherra var sérstaklega ánægður með það, því hann var þá hæstv. iðnaðarráðherra og hefur mikinn áhuga á ferðamálum, (Gripið fram í: Olíumálaráðherra!) já, olíumálin voru þarna einnig á sveimi.

Virðulegi forseti. Árið 2009 fór ríkisstjórnin núverandi í þau brýnu verkefni að breyta nöfnum á ráðuneytum, væntanlega til þess að halda í formfestuna. Þau voru endurskírð, dóms- og kirkjumálaráðuneytið varð að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Ég fletti því upp í Google hversu margar þjóðir hafa mannréttindaráðuneyti. Upp komu Lesótó og hvort það var ekki Simbabve og Erítrea. Slíkar þjóðir hafa mannréttindaráðuneyti ásamt okkur Íslendingum. Menntamálaráðuneytið varð mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgönguráðuneytið varð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og viðskiptaráðuneytið varð efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Núna, árið 2010, á að stofna risaráðuneyti, sameina félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Það á að sameina dómsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið yfir í innanríkisráðuneyti og síðan eiga sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytin væntanlega að verða atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Hluti umhverfis- og iðnaðarráðuneytis verður umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Hver trúir því í öllum þessum hræringum þar sem nær enginn faglegur undirbúningur liggur að baki að þetta muni hjálpa okkur við núverandi aðstæður? Þetta er alltaf skaðlegt, virðulegi forseti. Trúir því einhver að við þessar aðstæður sé skynsamlegt að haga málum með þessum hætti?

Verðum við ekki að gera þær kröfur til stjórnarflokkanna að þeir vinni úr sínum innanbúðarerjum með öðrum hætti en að hræra í Stjórnarráðinu? Er það ekki eðlileg krafa? Það kom fram í fjölmiðlaumfjöllun, virðulegi forseti, í þessum hræringum öllum að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að setja til hliðar, útskýrði þetta mjög ærlega en það hefur lítið farið fyrir því. Ráðherrann fyrrverandi fór yfir það að þetta mundi tryggja að fjárlögin færu í gegn. Mér fannst það mjög ærlegt hjá hæstv. ráðherra, en ótrúlegt hvað stjórnmálaskýrendur hafa veitt þessu litla athygli. Það er bara þannig að það þurfti að skaffa hæstv. dómsmála… Virðulegur forseti, ég verð svo þreyttur að telja þetta allt saman upp, hann er dómsmála- og mannréttindaráðherra og eitthvað fleira, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ég skal fara yfir þetta aftur. Hæstv. dómsmála-, mannréttinda-, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Ögmundur Jónasson þurfti að fá ráðherrastól til þess að fjárlögin færu í gegn.

Gott og vel, þetta er vandi þessarar samhentu ríkisstjórnar, að vísu ekki bara hennar heldur vandi þjóðarinnar líka, en er hægt að bjóða þjóðinni upp á það að setja allt á annan endann með stjórnkerfið? Að fara með gassagangi í það að útbúa ný ráðuneyti með öllum þeim tilfæringum sem því fylgir? Hér eru engir útreikningar um neinn sparnað. Ég veit alveg hvað það þýðir þegar menn eru að breyta ráðuneytum. Ég veit nákvæmlega hvað það þýðir. Það þýðir ekkert að segja draugasögur í björtu um að hér geri menn þetta til þess að ná fram hagræðingu. Það hefur ekkert með það að gera. Eina sem menn hafa tilgreint eru nokkrir bílstjórar og tveir ráðherrar. (Utanrrh.: Þeir segja ekki bílstjórunum upp.)

Virðulegur forseti. Hér er upplýst af hæstv. utanríkisráðherra að bílstjórum verði ekki fækkað. Þá eru komnir tveir ráðherrar sem eru að vísu á biðlaunum, allir fjórir, eðlilega eins og lög gera væntanlega ráð fyrir, þannig að þetta hefur ekkert með neinn sparnað að gera. Þetta hefur ekki með neinar faglegar forsendur að gera.

Alvarleiki málsins er sá að þetta mun koma niður á þjóðinni og sérstaklega þeim sem minnst mega sín. Þetta er fullkomlega vanhugsað. Öll fyrirheit um samráð hafa verið svikin. Það allra versta er að norræna velferðarstjórnin sá ekki einu sinni ástæðu til að senda þeim aðilum sem þurfa á þjónustu risaráðuneytisins að halda (Forseti hringir.) málið til umsagnar.