138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er búið að sameina heimahjúkrun og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og ég ætla ekki að fara yfir hve stór hluti landsmanna býr þar. Það sama á við á Eyjafjarðarsvæðinu, sömuleiðis á Höfn í Hornafirði og unnið var að því að klára þetta annars staðar þegar ég var þarna. Ég veit ekki hvort eftirmenn mínir hafa stoppað það en væntanlega eru einhverjar líkur á því. Það þarf ekki að sameina nein ráðuneyti til að gera slíkt.

Eitt af því sem menn þurfa líka að átta sig á í svona tali er að við vitum að sveitarfélögin eru mjög misjöfn. Þau eru allt frá hreppum á Hornströndum þar sem við þekkjum ágætlega til, ég og hæstv. ráðherra, til Reykjavíkurborgar þar sem búa 116 þúsund manns miðað við um 50 manns í þessum litlu hreppum. Menn þurfa að taka mið af því en það er kannski aukaatriði í þessu máli.

Ég var fylgjandi því að heilbrigðis- og tryggingamálunum væri skipt upp. Af hverju var ég fylgjandi því, virðulegi forseti? Ég var sannfærður um að það mundi leiða til betri þjónustu og meiri hagræðingar, ekki nokkur einasti vafi. Heilbrigðismálin eru málaflokkur upp á rúma 100 milljarða kr. af 455. Að vísu var út af þráhyggju Samfylkingarinnar sem allt í einu áttaði sig á því þegar þau héldu að málefni aldraðra væru eitthvað annað en heilbrigðisþjónusta, ákveðinn hluti heilbrigðisþjónustunnar færður yfir í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sem var afskaplega óskynsamlegt, og nú er henni skipt, þ.e. hjúkrunarheimilunum, á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins sem er skýrt dæmi um pólitísk hrossakaup og kannski skýrustu dæmin í nútímasögunni. Við þurfum að finna leiðir í báðum þessum málaflokkum, og að því var ég að vinna í minni ráðherratíð, til að halda uppi þjónustu fyrir minni peninga. Við gerum það ekki með því að flækja þessa hluti, með því að setja þessa stóru öflugu málaflokka saman á einn stað. Það er fullkomlega útilokað.