138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur máli sínu til stuðnings um að byggja risaráðuneyti bara nefnt eitt og það er að hæstv. fjármálaráðherra flytji svo sannfærandi rök fyrir því. Virðulegi forseti. Sá hæstv. fjármálaráðherra flutti mjög sannfærandi rök fyrir því að við ættum að kyngja Icesave-samkomulaginu. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Hann var ekki svo sannfærandi.) Sem betur fer, virðulegi forseti, skoðuðum við það mál, við gerðum það. Við þekkjum það að við björguðum okkur fyrir horn þar. Ég hvet því hæstv. utanríkisráðherra til að koma með betri röksemdir fyrir þessu því að þetta er risamál. Ég vissi ekki til þess að við værum að samþykkja atvinnuvegaráðuneyti af því að hæstv. ráðherra talaði svo fjálglega fyrir því. Svo spurði hann okkur hvaða afstöðu Vinstri grænir hefðu í því máli. Virðulegi forseti. Ég er mjög fylgjandi því að stjórn og stjórnarandstaða vinni saman en mér finnst samt eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra spyrji Vinstri græna hvaða afstöðu þeir hafi í því máli.

Í rauninni var atvinnuvegaráðuneytið það eina sem hæstv. ráðherra flutti sannfærandi rök fyrir og það var tekið út úr frumvarpinu. Það sem hæstv. ráðherra flutti mest sannfærandi rökin fyrir og var augljóslega sannfærðastur um, og við sáum samviskubitið hverfa frá hæstv. ráðherra þegar hann talaði um það, var tekið út úr frumvarpinu. Við erum því ekki að samþykkja það. Hvers vegna skyldi það vera, virðulegi forseti, ef það er svona augljóst? Jú, það er út af pólitískum hrossakaupum í ríkisstjórninni. Menn fóru í þessar breytingar og settu, eins og einn stjórnarliðinn orðaði það, villikettina inn í ríkisstjórnina til að bjarga fjárlögunum. Þetta er ekki flóknara en það. Og atvinnuvegaráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra verður ekki samþykkt núna.