138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni kærlega fyrir ræðu hans. Hún var mjög fróðleg og yfirgripsmikil eins og hans er von og vísa en ég tel mig knúna til að koma hér upp og svara nokkrum dylgjum sem komu fram í máli hans um að ríkisstjórnin væri að greiða fyrir afgreiðslu frá þingmönnum Framsóknarflokksins, jafnvel vegna einhvers vonarneista sem bærðist í brjósti ríkisstjórnarinnar um stuðning Framsóknarflokksins við einhver mál hennar.

Ég vil minna á það að við þingmenn Framsóknarflokksins höfum líkt og aðrir undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni og erum ekki til sölu þannig að einhverjar aðrar ástæður eru fyrir þessu og vona ég að þær séu fyrst og fremst byggðar á faglegum grunni vegna þess að þær tvær þingsályktunartillögur sem voru samþykktar í dag eru mjög málefnalegar. Ég kýs frekar að túlka þetta á þann hátt að framsóknarmenn séu að leggja fram góð mál, góð frumvörp og góðar þingsályktunartillögur. (Gripið fram í.) Og að þess vegna setji ríkisstjórnin þessi mál á dagskrá og samþykki þau með okkur.

Það er mikið vísað í skýrsluna sem gerð var fyrir forsætisráðherra í sumar. Mig langar til að vísa í skýrsluna áður en ég ber upp spurninguna til hv. þingmanns. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Á þeim stutta tíma, sem starfshópur forsætisráðherra hafði til umráða, hafði hann ekki tök á að vinna ítarlega útfærðar tillögur. Þess í stað hefur áhersla hans verið sú að leiða í ljós meginatriði sem af skýrslu rannsóknarnefndar má leiða og helstu viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að takast á við í ljósi ábendinga rannsóknarnefndar. […] Þá má nefna að þegar hefur verið skipuð sérstök nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands.“

Þessi nefnd hefur jafnframt lagt til að stofnuð verði lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu o.s.frv. Í ljósi þess að forsætisráðherra hefur fært þessari nefnd svo mikið vald, finnst hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þessi nefnd og aðgerðir hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) í kjölfar þeirrar skýrslu sem nefndin gaf út vera mikið á skjön (Forseti hringir.) við þá vinnu þingmannanefndarinnar sem nú er að störfum (Forseti hringir.) og er rétt skipað stjórnvald til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar?