138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef reyndar tekið eftir því að hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eiga ekki sérstaklega gott skap saman. Það kom fram í andsvörum hæstv. utanríkisráðherra áðan þegar hann veittist harkalega að hv. þingmanni og ég velti því fyrir mér þegar ég varð vitni að því hvort hæstv. utanríkisráðherra tilheyrði þeim hópi ríkisstjórnarinnar sem væri að reyna að skapa sér gott veður hjá Framsóknarflokknum með því að samþykkja mál á færibandi sem frá þeim flokki koma. Ég veit það ekki en ég hef tekið eftir því að það hafa ekki tekist miklar ástir með þessum tveimur einstaklingum á þingi, í skilningi orðalags sem oft var haft uppi í Íslendingasögunum. (Utanrrh.: Enginn er laminn til ásta heldur.) Enginn er laminn til ásta, segir hæstv. utanríkisráðherra og það er alveg hárrétt og alls ekki í þessu tilviki.

Hv. þingmaður spyr mig: Hvers vegna beið ríkisstjórnin ekki eftir þingmannanefndinni og greip síðan til þeirra aðgerða sem nefndin taldi nauðsynlegt að grípa til á grundvelli niðurstaðna sinna? Ég get ekki svarað því. Ég er ekki í ríkisstjórninni og styð ekki þessa ríkisstjórn. Ég vil þessa ríkisstjórn frá. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í.) verða að svara þessari spurningu. En ég get hins vegar sett fram mínar kenningar um það hvers vegna þetta var gert. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ríkisstjórnin greip til þessara aðgerða fyrst og fremst vegna þess að hún var ekki á vetur setjandi eins og komið var fyrir henni. Það varð að gera einhverjar breytingar til að róa órólegu deildina í Vinstri grænum, taka fyrirliða þeirrar deildar inn í ríkisstjórnina svo ríkisstjórnin (Forseti hringir.) gæti starfað áfram, a.m.k. tímabundið. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.)