138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að vantrauststillaga Hreyfingarinnar á fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra var í farvatninu, lá tilbúin úti á nefndasviði og hefði verið send inn í þingið í hádeginu á föstudag ef hann hefði ekki þá verið farinn frá. Ég veit svo sem ekki hvort það var meginástæðan fyrir því að skipt var um ráðherra en tillagan hefur væntanlega verið ein af ástæðunum. Það var alveg greinilegt að hér í þingsal var ekki hægt að svara fyrir framgöngu hans í ráðherraembætti.

Ég geld varhuga við ýmsu varðandi annað sem hv. þingmaður talaði um, t.d. í nefndarálitinu. Þar er talað um að ef þetta frumvarp verði að lögum verði stofnaður stýrihópur með þátttöku ráðherra, ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna til þess að endurskipuleggja stjórnsýsluna, ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta, sérstaklega heildarsamtök, svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félag forstöðumanna og sveitarfélögin. Hér er hvergi sagt að það verði gert í samráði við almenning eða að almenningur verði spurður. Það er þetta vandamál sem kemur alltaf upp í t.d. nefndunum: Hvert á að senda mál til umsagnar? Hvaða símanúmer hefur almenningur? Hver er það?

Það er komið nóg af því að stjórnsýslan endurskipuleggi sig sjálf. Það þarf að leita annarra leiða og í svona viðamiklu máli eins og endurskipulagningu íslensku stjórnsýslunnar er einfaldlega algjörlega nauðsynlegt að það verði ekki innanbúðarmenn sem endurskipuleggi hana. Það þarf að fá að verkinu erlenda sérfræðinga ef það á að vera eitthvert vit í því.