138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:48]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. Óli Björn Kárason vera býsna nálægt því sem ég hefði talið kjarna málsins í því hvernig ætti að skipuleggja Stjórnarráð Íslands. Þetta er umræða sem ég treysti mér ekki til að klára á einni og hálfri mínútu en ég lýsi ánægju minni með það að þessi hlið málsins, að þessi kjarni málsins skuli hafa verið dreginn fram í dagsljósið á svo skilmerkilegan hátt sem hv. þingmaður Óli Björn Kárason hefur gert.

Ég endurtek að ég hef ekki þungar áhyggjur af því með öllum hugsanlegum fyrirvörum að samþjöppun valds verði hættuleg við sameiningu ráðuneyta. Þvert á móti verð ég að viðurkenna að í sambandi við stærð ríkisstjórna kemur ævinlega upp í hugann máltækið gamla: Því verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Það er augljóst eða ekki augljóst að því fjölmennari sem ríkisstjórn er því meiri líkur eru á því að hún sé ekki eingöngu skipuð toppfólki. Ég held að við ættum að huga að því að draga svolítið saman seglin í ráðherrafjöldanum sem óneitanlega hefur ekki komið til af neinni nauðsyn úti í þjóðfélaginu eða neinni stjórnunarlegri nauðsyn heldur bara út af pólitískum hrossakaupum.