138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um breytingar á Stjórnarráði Íslands og mig langar kannski að byrja ræðu mína á því sem fór fram rétt áðan, þ.e. þegar hv. þm. Þráinn Bertelsson flutti ræðu sína og hv. þm. Óli Björn Kárason fór í andsvör við hann.

Það sem kom skýrt fram í máli hv. þm. Þráins Bertelssonar og sýnir kannski fáránleika málsins eins og hann kallaði þetta var það að hæstv. ríkisstjórn talar alltaf um samráð, samvinnu, gegnsæi og sjálfbærni og hvað þetta heitir allt saman, en það er allt í orði en ekki á borði.

Hv. þingmaður benti á það sem skiptir kannski höfuðmáli í þessari umræðu og það er að við erum að ræða um breytingar á Stjórnarráðinu sem fóru í raun fram fyrir nokkrum dögum síðan. Það er kannski mergur málsins að þær breytingar sem búið er að gera á Stjórnarráðinu og verið er að ræða í þinginu núna eru að búið er að fækka ráðuneytunum um tvö og síðan er verið að útfæra það með nýjum ráðherrum hvernig það verður gert nákvæmlega, því allir eiga að halda vinnunni en samt á að spara og það á að verða mikil hagræðing af þessu. Þetta er kannski mergur málsins. Ég verð að taka undir það sem hv. þm. Þráinn Bertelsson benti á í mjög snjallri ræðu áðan — sem mér fannst reyndar enda illa vegna þess að hann ætlaði að sitja hjá þótt hann teldi þetta vera hið versta mál — að þetta er umhverfið sem við erum að vinna í á hinu hv. Alþingi, búið er að sameina ráðuneytin og síðan erum við að ræða það hér og eyða tíma í það og pexa mikið um það hvað sé skynsamlegt að gera og hvað sé ekki skynsamlegt að gera. Þó að ég beri engar væntingar til þessarar hæstv. ríkisstjórnar, hefði ekki verið eðlilegra að hún stæði einhvern tímann við það sem hún segir og gefur loforð um, gegnsæi, vinnubrögð og allt það? Þegar reynir á og hún getur ekki komið málum í gegn sjálf þá fer hún að smjaðra utan í stjórnarandstöðunni til að fá málum sínum framgengt með öðrum hætti.

Hefði ekki verið eðlilegra að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu? Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur einmitt fram að þess þurfi. Ég gæti talið upp svo mýmörg dæmi um hvernig framkvæmdarvaldið hefur vaðið yfir þingið á þeim stutta tíma sem ég hef setið hér að ræðutími minn mundi ekki duga til þess. Menn geta síðan deilt um það hvort þetta hafi alltaf verið með þessum hætti. En ég tel eigi að síður að tími sé kominn til að við lærum eitthvað af öllu því sem á undan er gengið. Nú er ég farinn að hugsa upphátt og skoðun mín er sú að ef hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. ríkisstjórn hefðu haft einhvern hug á samvinnu í því verkefni hvernig breyta ætti í Stjórnarráðinu, þá hefði verið mjög einfalt fyrir hæstv. forsætisráðherra að fela hv. allsherjarnefnd að semja frumvarp. Ef hæstv. forsætisráðherra hefði haft einhverjar áhyggjur af því að hv. allsherjarnefnd drægi lappirnar og stjórnarandstaðan þvældist fyrir, hvernig sem menn líta svo á það, þá hefði hún getað sett nefndinni ákveðin tímamörk. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa að auki fólk úr sínum þingflokkum í allsherjarnefnd og hefðu getað gert kröfu til þess að nefndin skilaði þessu fyrir einhvern ákveðinn tíma. Þá hefðum við getað talað hér um eðlilega samvinnu og samstarf um hvernig breyta mætti þeim vinnubrögðum sem hafa liðist í þinginu allt of lengi. En sá boðskapur hentar hins vegar ekki hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra nema í ræðum á tyllidögum og hann stenst engan veginn skoðun, eins og margoft hefur komið fram. Til að árétta þetta þá kemur mér í hug og ég rakti það í andsvörum áðan hvernig allsherjarnefnd tók á svokölluðu stjórnlagaþingi í vor. Mjög skiptar skoðanir voru um í hvaða búningi það mál ætti að vera og náttúrlega var alveg galið að ætla fyrst að henda fleiri hundruð milljónum í þetta, það tókst reyndar að skera niður kostnaðinn vegna þess að samvinnan og samstarfið í hv. allsherjarnefnd var þannig að menn gátu náð sáttum og allir urðu að beygja eitthvað af leið. Um jafnmikilvægt mál og frumvarp um stjórnlagaþing er mjög mikilvægt að breið pólitísk samstaða náist ef hægt er. Stundum er það ekki hægt. En ég tel að í þessu máli hefði það verið hægt.

Ég var alveg ákveðinn í því að ræða störf án auglýsingar, en þar sem hæstv. utanríkisráðherra er því miður farinn úr salnum mun ég geyma það þar til á eftir, ef hann skyldi vera í húsinu, til að hann komi upp í andsvör, því það málefni er mjög viðkvæmt fyrir hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) En ég vil rifja upp fyrri umræðu um þetta frumvarp sem átti sér stað fyrir þinglok í vor og var því mjög skömm. Til að liðka fyrir þinglokum var ákveðið að hver þingflokkur fengi ákveðinn umræðutíma og einungis fáir þingmenn úr hverjum þingflokki töluðu, enda var ákveðið að vísa málinu til nánari útfærslu og samvinnu og samstarfs í allsherjarnefnd og vinna málið áfram í sumar og afgreiða það síðan núna. Það hefur verið algerlega þverbrotið og í nefndarálitinu kemur fram og hefur verið staðfest í dag að málið var tekið út úr nefnd í ágreiningi og í raun og veru ekkert hirt um það því eflaust hefur þurft að gera þetta með þeim hætti að hægt væri að færa rök fyrir því að menn færu í þessa uppstokkun á ráðherrunum vegna þess að ekki væri mjög æskilegt að þeir kæmu allir til þings aftur.

Mig langar, virðulegi forseti, til að vitna í orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem hann lét falla í fyrri umræðu málsins í vor. Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Vinstri grænir hafa ávallt talað fyrir því, áður en þeir komust í ríkisstjórn, að slíkt skyldi unnið í samráði allra flokka. Á meðan Stjórnarráðið er eins og bundið er í lögum skyldu breytingar á því vera í samráði við alla flokka. Við inntum eftir því hvort slíkt samráð hefði farið fram. Nei, þetta frumvarp birtist fullbúið í þingflokki Vinstri grænna og ekki var nokkur vilji til þess af hálfu forsætisráðherra að fara með málið í þann farveg að hægt væri að ná meiri sátt um málið, það væri unnið í þeim farvegi sem lagt er upp með hér. Það var algjörlega af og frá að það væri mögulegt. Því er málið komið í þennan farveg og ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, að það sé ekki heppilegt að vinna þetta með þessum hætti.“

Hér er ég, virðulegi forseti, að vitna í orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem er stjórnarþingmaður en hann sagði að Vinstri grænir hefðu ávallt talað fyrir þessu áður en þeir komust í ríkisstjórn. Síðan staðfesti hann, virðulegi forseti, að þegar málið var kynnt í þingflokki Vinstri grænna, sem er annar stjórnarflokkanna, stóð ekki til af hálfu hæstv. forsætisráðherra að ræða neinar efnislegar breytingar. Þetta var bara svona kurteisisleg kynning áður en málið var lagt fram. Það segir í raun og veru og staðfestir allt um það hversu innihaldslaus orð hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar eru um gagnsæi, samvinnu og samráð. Menn ætla að læra af hruninu og segja að það þurfi að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta staðfestir hversu innihaldslausir þessir frasar eru hjá hæstv. ríkisstjórn.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að benda á að í skýrslu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að þegar opinberar stofnanir hafa verið sameinaðar hafi þau markmið sem lagt var upp með einungis náðst í 15% tilfella, þ.e. í 85% tilfella náðust ekki þau markmið sem stefnt var að þegar stofnanir voru sameinaðar. Það undirstrikar, virðulegi forseti, að það hefði verið nær að ræða þetta betur í upphafi vegna þess að sporin hræða. En samt sem áður stendur ekki til að læra af mistökunum sem hafa verið gerð hér í mörg ár heldur á bara að halda áfram. Það á bara að halda áfram.

Mig langar, virðulegi forseti, að grípa niður í umsögn Ríkisendurskoðunar en þar kemur mjög skýrt fram hvernig hæstv. ríkisstjórn þarf að leggja upp í vegferð sem þessa eigi hún að takast. Þar kemur fram spurningalisti vegna sameiningar ráðuneytanna:

Eru markmið með sameiningunni? Hver eru rökin fyrir sameiningunni? Hver er framtíðarsýnin og markmiðið fyrir sameinað verkefni eða stofnun? Hvaða meginbreytingar verða á þjónustu og forgangsröðun verkefnanna frá því sem áður var? Hvaða mælikvarðar verða notaðir til að leggja mat á árangur sameiningar? Það situr alltaf eftir, virðulegi forseti. Menn að fara af stað illa undirbúnir. Þegar búið er að sameina stofnanirnar eða ráðuneytin eins og í þessu tilfelli þá er gert ráð fyrir að allir haldi vinnunni. Síðan á þetta að gerast á löngum tíma sem mun hugsanlega ekki skila þeim árangri sem til var ætlast. Þá verða svörin hefðbundin: Verkefnið reyndist umfangsmeira og stærra en upphaflega var áætlað þannig að hagræðingin skilaði sér ekki eins og til var ætlast. Þetta er þekkt.

Mig langar að endurtaka það sem ég sagði: Hvaða meginbreytingar verða á þjónustu og forgangsröðun verkefna frá því sem áður var? Einnig vil ég vekja máls á því, virðulegi forseti, sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fyrr í dag að við sameiningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við félagsmálaráðuneytið verður til þetta svokallaða risaráðuneyti sem er komið með rúmlega helming af ríkisútgjöldunum. Það var ekki haft samráð við starfandi heilbrigðisstéttir. Ekki var talað við sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Þeir fá ekki að veita umsagnir um frumvarpið. Eru þetta öll vinnubrögðin? Þetta undirstrikar enn og aftur rangnefnið á ríkisstjórninni, að kalla sig velferðarstjórn. Þetta er ekkert annað en afturhaldskommúnistaríkisstjórn sem starfar í landinu.

Virðulegi forseti. Í andsvörum við hv. þm. Róbert Marshall í dag, formann allsherjarnefndar, vakti ég athygli á bókun sem lögð var fram í 1. umr. um þetta mál af hv. þm. Atla Gíslasyni. Einnig skrifa hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar undir. Þeir leggja fram bókun um að málið sé illa reifað og í andstöðu við reglur handbókar Stjórnarráðsins og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Þetta eru ekki nein smáorð, virðulegi forseti, þar sem þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra leggja fram bókun um að málið sé það illa unnið og vanreifað að það stangist á við handbók Alþingis um það hvernig vinna skuli að málum.

Hvað skyldi hafa orðið um þessa bókun, virðulegi forseti? Hún var ekki tekin til umfjöllunar í hv. allsherjarnefnd. Þetta eru stór orð. Það segir kannski allt sem segja þarf um vinnubrögðin hér. Það kemur líka fram í bókuninni, virðulegi forseti, að hvorki var leitað eftir samstöðu við stjórnarandstöðuna né aðra, ekki einu sinni annan stjórnarflokkinn, um það hvernig þetta mál yrði lagt fram. Enda virðist það líka vera þannig, virðulegi forseti, að þegar menn leggja fram mál með þessum hætti, eins og sjá má í þingsal, þá situr einungis einn þingmaður í salnum og enginn stjórnarþingmaður nema virðulegur forseti. Þetta er allt samráðið.

Virðulegi forseti. Þegar ég hlustaði á fréttirnar um helgina fór ég að hugsa um þessa bókun hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem lögð var fram til undirbúnings málsins. Síðan hefur komið fram að miklar deilur standa í hæstv. ríkisstjórn um það hvort við séum í aðildarviðræðum eða aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið. Um helgina kom fram í fjölmiðlum, virðulegi forseti, að fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Kristrún Heimisdóttir, hefði sagt á opnum fundi hjá Samfylkingunni að Samfylkingin hefði verið búin að semja um það í upphafi árs 2009 að Svavar Gestsson yrði aðalsamningamaðurinn um Evrópusambandið. Þá velti ég fyrir mér hvort það gæti verið að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra Jón Bjarnason hefðu áttað sig á því að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefði verið búinn að semja um það í upphafi árs 2009 á tíma minnihlutastjórnarinnar og fyrir þingkosningar að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu þó að annað hefði verið boðað úti í kjördæmunum í kosningabaráttunni. Það væri aldrei, virðulegi forseti, að þessir ágætu menn hefðu verið búnir að uppgötva þetta á þessum tíma og þess vegna sett sig upp á móti málinu. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherra höfðu miklar áhyggjur af stofnun atvinnuvegaráðuneytisins vegna þess að þeir treystu ekki hv. þingmönnum Samfylkingarinnar til að fara með þau mál og standa í lappirnar gagnvart Evrópusambandinu. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt á tveimur þingfundum í röð, þegar hún er spurð um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, að það eina sem komi upp í hugann sé að það þurfi að ganga í Evrópusambandið. Ég er ekki hissa þó að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi haft efasemdir um þetta. Það skyldi þó aldrei vera að þeir hefðu vitað af samningnum milli hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra fyrir þingkosningarnar árið 2009 um að það væri búið að ákveða að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það væri búið að skrifa það inn í stjórnarsáttmálann.

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sem er því miður að fara úr salnum sagði í andsvörum fyrr í dag að allar breytingar á ríkisstjórninni væru til að styrkja hana. Mín skoðun er sú að það sé ekki verið að styrkja þessa ríkisstjórn til hagsmuna fyrir þjóðina. Það liggur alveg í augum uppi. Eins og kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, varð að skipta út úr ríkisstjórninni til þess að koma fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 í gegn núna í haust. Það er búið að setja beislið á aðalvilliköttinn, hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson, og hann fær að hafa hæstv. ráðherra Jón Bjarnason við hliðina á sér í nokkra mánuði til viðbótar áður en honum verður hent út. Hvaða staða kemur þá upp? Það kom fram í bókuninni sem ég sagði frá áðan, og lögð var fram í 1. umr. um málið, frá tveimur hv. þingmönnum og einum hæstv. ráðherra Vinstri grænna um breytingarnar á Stjórnarráðinu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu verða ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fjórir á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar í stað fimm og fimm eða fjórir og fjórir. Það veikir pólitíska stöðu Vinstri grænna.“

Þetta leggja þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna fram sem bókun þegar menn ræða þetta mál í 1. umr. Kannski er þetta skýringin á þessu öllu saman. Vinstri grænir upplifa það þannig að þeir veikja pólitíska stöðu sína eins og kemur fram í bókun þeirra. Það er kannski mergur málsins og útskýrir öll hrossakaupin í kringum þetta og hvernig þetta var gert.

Í restina ætla ég að vera smájákvæður út í þetta mál þótt það sé handónýtt að öllu leyti. Ég verð þó að segja að það er mikilvægt að menn fari að stokka upp í Stjórnarráðinu. Mér fannst mjög athyglisverðar hugmyndir sem komu fram í þinginu sl. vor og vetur um að breyta stjórnsýslunni þannig að starfsfólk ráðuneytanna væri einnig starfsfólk Stjórnarráðsins í heild sinni. Ég tel skynsamlegt að skoða það. Eins og þetta er í dag er fólk ráðið í ráðuneytin en hugmyndina væri hægt að þróa betur og í rétta átt. Ef allt starfsfólkið sem vinnur í ráðuneytunum væri starfsfólk Stjórnarráðsins væri auðveldara að færa það til innan ráðuneytanna þegar meira vinnuálag væri á sum ráðuneytin en minna á önnur. Það væri hægt að gera það með mun einfaldari hætti en hægt er í dag. Ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða nánar í framtíðinni, virðulegi forseti.