138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. formann iðnaðarnefndar, Skúla Helgason, um stöðu mála varðandi framkvæmdir við gagnaver í Reykjanesbæ. Þannig er að við samþykktum loksins á þingi snemmsumars fjárfestingarsamning við Verne Holdings um smíði gagnaversins. Sá samningur var mikilvægur og ég spurði hv. þingmann í umræðum 6. maí hvort hann teldi þar með að öllum hindrunum væri rutt úr vegi varðandi þessa framkvæmd. Ég fékk þá það svar að þetta væri mikilvægasta hindrunin, eftir væri „tæknilegt vandamál“ í fjármálaráðuneytinu sem sneri að virðisaukaskattsmálum sem þyrfti að leysa, svo ég noti hans orð, og hann taldi að það væri „fullur pólitískur vilji fyrir því að koma málinu í höfn“.

Í millitíðinni hefur það gerst að hæstv. fjármálaráðherra skrifar greinar í blöðin um að landið sé að rísa og að m.a. þurfi að líta til atvinnusköpunar á sviði grænnar orku. Gagnaver, ylrækt, kísilflöguvinnslu, koltrefjavinnslu o.s.frv. nefnir hann sérstaklega í greinum sínum. Hann er sem sagt að mæra gagnaver og því er spurning hvort hann hljóti ekki að vera því hlynntur.

Nú berast þær fréttir að fyrirtæki sem ætluðu sér að koma með verkefni inn í gagnaver Verne Holdings, sem er í sjálfu sér einungis skel utan um þau fyrirtæki sem ætluðu að koma þangað með starfsemi — ég nefni IBM — séu hætt við. Ástæðan er tafir í íslenskri stjórnsýslu við að leysa þetta sem formaður iðnaðarnefndar kallaði væntanlega á sínum tíma tæknilegt úrlausnarefni sem ætti að taka daga eða vikur. Nú er kominn septembermánuður. Gagnaverið er ekki farið af stað og menn á Suðurnesjum óttast að þarna fari bráðum að verða stöðvun framkvæmda, kranarnir teknir niður og allt stöðvist. (Forseti hringir.) Þetta yrði að sjálfsögðu enn eitt áfallið fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum og dæmi um að það (Forseti hringir.) þurfi bara einn lítinn staf til að breyta jákvæða hugtakinu (Forseti hringir.) atvinnusköpun, setja ð í staðinn — þetta er atvinnusköðun ríkisstjórnarinnar.