138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað hægt að koma inn á mörg mál sem hafa verið rædd hér í dag. Fyrst vildi ég nefna það sem fram hefur komið, annars vegar af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og hins vegar af hálfu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Það er ekki alveg sama skýringin sem þeir gefa á því að ríkisstjórnin hafi gengið í gegnum þessar breytingar um daginn.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur komið með þá opinberu söguskýringu að þarna hafi verið um að ræða nauðsynlega breytingu í kjölfar þess að ákveðið hafi verið að fækka ráðherrum og ráðuneytum. Reyndar er rétt að minna á að þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin hófu samstarf 1. febrúar 2009 voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar 10. Svo var þeim fjölgað þegar ríkisstjórnin var endurnýjuð á vordögum 2009 þannig að þetta hefur gengið sitt á hvað og engin leið að segja hvort talan 10 verður endanlega niðurstaðan hjá þessari ríkisstjórn. Þetta eru hrókeringar og það er miklu nær, sem lesa má út úr orðum hæstv. utanríkisráðherra, að ástæðan fyrir breytingunum sé sú að ríkisstjórnin hafi vart verið á vetur setjandi vegna innri sundrungar. Ráðherrabreytingin nú er auðvitað ekkert annað en viðleitni til að reyna að berja í þá bresti. (Gripið fram í.)

Þetta er nauðsynlegt að komi fram vegna þess að í þinginu er haldið uppi mjög mismunandi skýringum á því hvers vegna farið var út í þessar breytingar. Sumir hv. þingmenn reyna með einhverjum hætti að breiða yfir staðreyndir í þessu máli en það er auðvitað rétt sem bent hefur verið á, (Forseti hringir.) hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vísaði mjög skýrt til þess (Forseti hringir.) að ráðherrabreytingin væri nauðsynleg til að koma fjárlögum í gegn. (Forseti hringir.) Spurningin er auðvitað: Hver er framtíð slíkrar ríkisstjórnar sem hefur svo (Forseti hringir.) veika stöðu?