138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Nokkur orð um það sem hér hefur verið sagt um fælingarmátt kreppunnar. Það er alveg rétt að hann er mjög mikill (BÁ: Og fælingarmáttur ríkisstjórnarinnar.) [Hlátur í þingsal.] og fælingarmáttur íslensku krónunnar er líka mikill eins og fram hefur komið í fréttum á síðustu dögum. Krónan þýðir höft og við ættum kannski að vera að ræða það hvernig (Gripið fram í.) við ætlum að losa krónuna undan höftunum og koma á eðlilegu efnahagsástandi í landinu. Eitt er að tala um fælingarmátt kreppu, tölum um fælingarmátt krónunnar því að ég hygg að við séum öll þegar á reynir sammála um að við þurfum á aukinni erlendri fjárfestingu að halda í öllum þáttum íslensks atvinnulífs. (Gripið fram í: Þar með …?) Fælingarmáttur kreppunnar og krónunnar sést m.a.s. í fjármögnun orkufyrirtækjanna sem hefur gengið afar erfiðlega á undanförnum missirum. Ekki þarf að hafa fleiri orð um það í þessum sal, það þekkja þingmenn ef þeir hafa ekki líka rætt það við forsvarsmenn þessara fyrirtækja.

Um Icesave-deiluna er það eitt að segja að sú deila verður aðeins leyst með samningum. (VigH: Nú?) Lausn á þeirri deilu er hluti af því að endurreisa traust og trúverðugleika á íslensku efnahagslífi, á íslensku stjórnkerfi, á Íslandi sem landi. Það hlýtur að vera markmið allra sem hér sitja að vera hluti af því að finna góða, ábyrga lausn á þeirri deilu (Gripið fram í.) og leysa hana í samningum þannig að hún verði loks út úr heiminum — vonum seinna.