138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir svörin sem hann gaf. Ég veit að þingmaðurinn deilir þeirri skoðun minni að þetta þurfi að leysa, enda sagði hann það áðan. Hér hefur verið talað um fælingarmátt fjármálakreppunnar en ég held að það sé rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson kallaði fram í, eini fælingarmátturinn er ríkisstjórnin sjálf. (Gripið fram í.) Í úrræðaleysi og fullkomnum vanmætti grípur hún enn þá til Icesave-hálmstrásins.

En förum aðeins yfir þetta. Það er ekki Icesave sem tefur gagnaverið, það er tæknilegt virðisaukaskattsúrlausnarefni í fjármálaráðuneytinu. Leysum það. Við getum gert það núna strax eftir hádegi, fyrir hádegi þess vegna. Það er ekki Icesave sem tefur uppbyggingu einkasjúkrahúss í Reykjanesbæ. Það er ríkisstjórnin sem tefur það og hefur tafið. Það er ekki Icesave sem tefur það að fyrirtækið ECA geti sett upp viðhaldsstöð á Keflavíkurflugvelli. Það svæði er mér mjög hugleikið (Gripið fram í.) þar sem þar eru fjöldamörg verkefni sem hafa ekkert með Icesave að gera, sem hafa bara með það að gera að það er einhver mótstaða innan ríkisstjórnarinnar.

Nú skora ég á hv. þm. Skúla Helgason og alla þingmenn hér inni, hvar í flokki sem þeir standa, sem vilja virkilega koma hjólum atvinnulífsins í gang: Stöndum saman, myndum nýjan meiri hluta um þessi atvinnuverkefni. Komum af stað öllum þeim verkefnum sem bíða í startholunum. Fjárfestar eru tilbúnir að hætta fjármagni sínu í íslenskan atvinnurekstur þrátt fyrir Icesave, þrátt fyrir að við séum í vanda. Þeir bíða í röðum. Vinnum með þessu fólki. Það er okkur öllum til hagsbóta. Ef það er ekki gert og ef þessi ríkisstjórn tekur sig ekki saman í andlitinu dugar ekki að punta hana upp. Hún verður að koma sér til verka, annars er hún gagnslaus og þá verður hún bara að fara frá.