138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tímabært mál sem skiptir allan almenning á Íslandi miklu. Ég kýs að ræða lífeyrissjóðina í svolítið stærra samhengi og velti því upp að við stjórnvölinn á þessum lífeyrissjóðum eru enn þeir sem stýrðu þeim á sama tíma og þeir töpuðu tugum, ef ekki hundruðum, milljarða af lífeyrissparnaði landsmanna. Hið opinbera steig ekki fram þá eins og það hefði átt að gera, og það hefði átt að krefjast ítarlegrar rannsóknar á því sem fram fór í þessum lífeyrissjóðum á þeim tíma.

Alþingi setti lög sem skylda almenning í landinu til að láta af hendi fjármuni í vörslu sjóða og því er það algjört skilyrði að eftirlitsskylda af hálfu ríkisins fylgi slíkri lagasetningu. Sú eftirlitsskylda brást algjörlega, það er komið í ljós, en ríkið hefur ekkert gert í framhaldinu af því til að rannsaka þetta mál. Það er enn einn af þeim skandölum sem fylgja okkur í þessu hruni. Tap þeirra var gríðarlegt. Það hefur enn þá ekki komið upp á yfirborðið hvað það var mikið, sumir tala um allt að 500 milljarða kr.

Yfirráð eigenda yfir sparifé sínu í þessum sjóðum er mjög takmarkað og réttur almennra félagsmanna er sömuleiðis takmarkaður. Atvinnurekendur eru í stjórnum þeirra. Þeir hafa fjárfest í þeim fyrirtækjum sem þeim hugnast helst — og þannig er þetta áfram. Þessu kerfi þarf að breyta.

Stjórnmálamenn eiga heldur ekki að skipta sér af fjárfestingu lífeyrissjóða, eins og ég heyrði á máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar áðan. Það væri sennilega enn þá verra ef alþingismenn ætluðu að fara að skipa lífeyrissjóðunum að grafa Vaðlaheiðargöng eða önnur eða þriðju Héðinsfjarðargöngin einhvers staðar annars staðar á landinu. Við skulum vara okkur á þeirri vegferð líka. Þetta eru fjármunir, lífeyrissparnaður almennings, og almenningur á að hafa meira um það að segja.

Ég mun svo halda áfram (Forseti hringir.) með mál mitt í annarri umferð.