138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að fjármunir lífeyrissjóðanna, sem í reynd eru eign allra vinnandi manna á Íslandi og afrakstur af vinnu þeirra, nýtist sem best til atvinnusköpunar og uppbyggingar hér innan lands.

Lífeyriskerfið hrundi ekki með bönkunum. Það skaddaðist en það hefur náð styrk sínum að nýju. Samstarf ríkisins við lífeyrissjóðina hefur þess vegna gert okkur kleift að ráðast í brýn samfélagsleg verkefni þrátt fyrir þær þröngu efnahagsaðstæður sem við búum við. Þannig er bygging Landspítalans loks komin á skrið vegna aðkomu 21 lífeyrissjóðs að því mikilvæga máli sem margir telja að sé eitt brýnasta hagsmunamál íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þetta er verkefni upp á ríflega 50 milljarða kr., 2.600 ársverk við bygginguna eina sem á að ljúka 2016/2017 en nýlega var skrifað upp á hönnunarsamning upp á 800 millj. kr. á næstu 16 mánuðum.

Í dag verður fundur með fulltrúum lífeyrissjóða og Vegagerðar um framkvæmdir í samgöngumannvirkjum upp á ríflega 30 milljarða kr. Samtals eru þetta verkefni upp á um 85 milljarða kr. sem Alþingi bjó um sérstaka lagaumgjörð í sumar.

Samstarf ríkisins við lífeyrissjóðina byggist á því að um þjóðhagslega hagkvæmar, arðbærar framkvæmdir sé að ræða og að þær séu samfélaginu mikilvægar, að verkefnið skapi atvinnu, að samningar um framkvæmdirnar skili lífeyrissjóðunum tilskildum arði og loks að ríkið eignist mannvirkin að tilteknum tíma liðnum.

Frú forseti. Hrunið skildi eftir milljarðagat á fjárlögum ríkisins og stöðvaði að mestu opinberar framkvæmdir. Rekstur og framkvæmdir einkaaðila fóru jafnvel enn verr út úr hruninu og þá, frú forseti, var gott að eiga öflugt lífeyrissjóðakerfi þar sem ábyrgð og framsýni ræður ríkjum. Ég gagnrýni því ekki lífeyrissjóðina fyrir að taka þátt í því verkefni (Forseti hringir.) að byggja upp betra samfélag á Íslandi. Það munar um framlag þeirra og það mun flýta fyrir endalokum kreppunnar.