138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:27]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Atvinnuleysi er dýrt og hefur reynst okkur dýrt á umliðnum árum. Á bak við hvert prósent eru u.þ.b. 1.650 Íslendingar án atvinnu og á síðasta ári fengu u.þ.b. 30.000 Íslendingar greiddar út atvinnuleysisbætur að einhverju leyti. Þetta hefur reynst okkur þungur baggi og á yfirstandandi ári verða greiddar út atvinnuleysisbætur á bilinu 25–30 milljarðar kr. Hver atvinnuleysisprósenta kostar okkur 3,1 milljarð kr. Þetta er allt of dýrt, atvinnuleysið er okkur allt of dýrt. Þess vegna finnst mér eðlilegt að það sé samfélagsskylda lífeyrissjóðanna að koma að atvinnuuppbyggingu í landinu vegna þess að það sem atvinnulífið skortir fyrst og fremst á Íslandi er lánsfjármagn til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

Þá ber að horfa á í hvaða verkefni lífeyrissjóðirnir eiga að ráðast. Sporin hræða hvað varðar áhættufjárfestingar og ég geld varhuga við því að lífeyrissjóðunum verði gert kleift að fara út í hvaða fjárfestingar sem er og þar hlýtur Bankasýsla ríkisins að koma að verki. Lífeyrissjóðirnir hafa úr u.þ.b. 1.800 milljörðum kr. að spila og ég tel mjög brýnt að þeir komi að arðbærum og ábyrgum verkefnum, ekki síst á sviði samgöngu- og samfélagsmála, og horfi þar til suðvesturhornsins og reyndar landsins alls ef því er að skipta. Hér hafa verið nefnd verkefni á borð við Landspítala – háskólasjúkrahús, ég nefni samgöngumiðstöð, ég nefni vegabætur og ég nefni margt annað en endurtek að ég geld varhuga við því að (Forseti hringir.) lífeyrissjóðunum verði hleypt inn í algerar áhættufjárfestingar. (Forseti hringir.) Þar hræða sporin.