138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:30]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Ég held áfram með mál mitt. Fámenni Hreyfingarinnar gefur manni kost á því að horfa framan í marga þingmenn oft á dag og er þetta gleðileg reynsla.

Bankasýsla ríkisins er eitt af þeim fyrirbærum sem fór mikið fyrir í lagasetningu snemma á síðasta ári. Þetta er skrýtið fyrirbæri, Bankasýsla ríkisins. Það virðist enginn átta sig á því nákvæmlega hvað hún er að gera eða hvað hún á að gera. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna eða kaup þeirra á Vestia eru gerð í reykfylltum bakherbergjum. Það er verið að gera díla í bankakerfinu milli ríkisfyrirtækis og lífeyrissjóða almennings í reykfylltum bakherbergjum Landsbankans með nákvæmlega sama hætti og gert var fyrir hrunið. Eru þetta sporin sem við erum búin að stíga á undanförnum tveimur árum? Þetta er ekki gæfuleg vegferð. Viljum við halda þessu áfram?

Hér er verið að tala um lífeyrissparnað almennings og hér er verið að tala um skyldur sem eru lagðar á hendur almenningi til að leggja fram fé til lífeyrissparnaðar. Hér er í gildi löggjöf um skyldutryggingar á bifreiðum, skyldutryggingar á húsnæði. Almenningur er skyldaður með lögum til að kaupa ákveðna þjónustu af fyrirtækjum í umhverfi sem er einokunar- og fákeppnisumhverfi. Þetta er glórulaus vanvirðing við almenning og við alla eðlilega viðskiptahætti, þannig að lífeyrissjóðirnir eru ekki eina dæmið um lagasetningu af þessu tagi sem þarf að skoða rækilega.

Þessi áframhaldandi leyndarhyggja er farin að teygja anga sína inn í það sem menn tala hér um að sé atvinnuuppbygging. Ég leyfi mér nú að tala um að atvinnuuppbygging eins er glötuð fjárfesting annars. Við höfum mýmörg dæmi um það að fólk er að krefjast (Forseti hringir.) þess að lífeyrissjóðirnir setji peninga í eitt og annað sem þóknast stjórnmálamönnum frekar en þeirri arðsemi sem lífeyrissjóðirnir eiga að skila (Forseti hringir.) eigendum sínum.