138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir innlegg hans í umræðuna. Það var þó einhver misskilningur á milli okkar og sú umræða sem spratt síðan í kjölfarið hefur einhvern veginn verið út og suður. Ég var ekki að biðja hæstv. fjármálaráðherra um að svara fyrir gjörðir Landsbanka Íslands vegna sölunnar á Vestia eða að fjalla um Bankasýsluna. Tilefni þessarar umræðu var hins vegar kaup Framtakssjóðsins á Vestia og hvernig var staðið að þeim.

Ég beindi í rauninni efnislega bara þremur spurningum að hæstv. fjármálaráðherra og ítreka að ég vil fá skýrari svör vegna þess að þau hafa þá farið fram hjá mér. Í fyrsta lagi hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að lífeyrissjóðir séu að kaupa heilu fyrirtækin og fyrirtækjasamsteypurnar sem eru í samkeppnisrekstri og hvort hæstv. ráðherra telji ekki rétt að endurskoða reglur um fjárfestingar lífeyrissjóðanna til að herða á þeim. Það má nefna að sjóðirnir eru í rauninni að sniðganga þessar reglur með því að stofna Framtakssjóðinn. Í þriðja lagi hvort hæstv. ráðherra geti tekið undir með mér að það sé nauðsynlegt að breyta lögum um lífeyrissjóðina þannig að tryggt sé að sjóðfélagarnir sjálfir komi að því að velja stjórnir og marka stefnu sjóðanna. Ég geri ekki athugasemdir við það að lífeyrissjóðir leggi fjármuni í atvinnulífið nema síður sé, ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur. En ég geri athugasemd við það þegar frammámenn lífeyrissjóðanna, fámennur hópur manna tekur ákvörðun um slíkar fjárfestingar fyrir hönd tugþúsunda sjóðfélaga án þess að hafa til þess raunverulegt umboð. Ég held að við eigum að ræða þetta einmitt á þessum nótum.