138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það kemur vel á vondan að það skuli aðallega hafa lent á mér að tala hér í dag.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Í frumvarpi þessu er lagt til að settar verði heimildir til kyrrsetningar vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Sambærileg heimild var sett í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með lögum nr. 23/2010 og var talið að sú heimild næði einnig til þeirra laga sem hér um ræðir á grundvelli hinnar almennu tilvísunarreglu sem mikið er notuð í skattaréttinum. Hæstiréttur kvað hins vegar upp dóm þann 21. júní sl. í máli 372/2010 þar sem ekki var fallist á að almenn tilvísun virðisaukaskattslaga til tekjuskattslaga dygði til að veita lagaheimild til kyrrsetningar vegna áætlaðra brota gegn virðisaukaskattslögum.

Frumvarpi þessu er því ætlað að veita skattrannsóknarstjóra heimild til að krefjast kyrrsetningar á eignum aðila vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Eins og í lögum nr. 23/2010 er kyrrsetningarheimildinni ætlað að bregðast við hættu á undanskoti eigna meðan rannsókn stendur yfir þar sem málsmeðferðartími vegna þessara brota getur orðið mjög langur og því aukin hætta á að þeir aðilar sem rannsókn sæta reyni að koma sér undan greiðslum skatta og mögulegra fésekta með því að færa eignir sínar í hendur öðrum eða koma þeim undan með öðrum hætti. Það er í höndum skattrannsóknarstjóra að meta væntanlega enduráætlun og sektarfjárhæð en tollstjóri annast rekstur mála vegna kyrrsetningarkröfu. Almennar reglur um kyrrsetningu fjármuna mundu gilda um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við á en þó er gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafana taki ekki til kyrrsetningar tollstjóra. Gert er ráð fyrir því að heimilt sé að beita kyrrsetningu vegna ætlaðra brota á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, á grundvelli 11. gr. þeirra laga. Á sama hátt og í lögum nr. 23/2010, þ.e. upphaflegu lögunum, er lagt til að unnt sé að beita heimildum frumvarpsins vegna mála sem rannsókn er þegar hafin á til jafns við þau sem síðar verða rannsökuð hjá skattrannsóknarstjóra.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. Nefndin er málinu kunnug frá vinnu sinni í sumar og ef ég man rétt tókst allgóð samstaða um afgreiðslu þess þó að einhverjir kynnu að hafa haft þar fyrirvara á. Það væri ákaflega æskilegt að óvissu yrði eytt að þessu leyti sem fyrst þannig að skattrannsóknarstjóri og skattyfirvöld gætu beitt þessum heimildum í þeim tilvikum sem það varðar ríka hagsmuni hins opinbera enda að mínu mati fullkomlega eðlilegt þar sem þessi yfirvöld fara með gæslu ríkra almannahagsmuna sem er að tryggja að skattkröfur séu greiddar og sektir og annað því um líkt, rétt eins og yfirvöld á öðrum sviðum sem sambærilegra heimilda njóta. Því er ekki að leyna, og því er þetta frumvarp flutt á þessu stutta septemberþingi, að það kæmi sér afar vel og mundi greiða fyrir framvindu fjölmargra mála ef Alþingi treysti sér til að hraða afgreiðslu málsins en að sjálfsögðu er það í þess höndum.