138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið og ekki að fara sérstaklega í efnisatriði frumvarpsins. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð af öðrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmönnum Tryggva Þór Herbertssyni og Birgi Ármannssyni. Við það að hlusta á þessa umræðu er augljóst að málið er flókið og viðamikið þó að það láti lítið yfir sér. Ég ætla því rétt að forvitnast um praktískar hliðar þess.

Nú erum við stödd á septemberþingi sem samkvæmt þingsköpum á að klára þau mál sem lögð hafa verið fyrir þingið. Þetta mál er nýtt. Við fengum skýr fyrirmæli, þingflokksformenn, frá hæstv. forseta þingsins — ekki þeim sem hér situr að vísu — um að engin mál yrðu tekin fyrir nema þau sem kláruðust í nefndum á nefndadögum sem lauk fyrir lok ágúst. Þar sem frumvarpið er svo seint fram komið lít ég svo á að til að hægt sé að fara vandlega yfir þetta, og ég tek undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni, þurfi að kalla til sérfræðinga, bæði innan og utan stjórnsýslunnar.

Dregin hefur verið sú skýra lína að nefndafundir verði einungis þegar mál eru kölluð til nefndar á milli 2. og 3. umr. og skýr fyrirmæli eru um það að þingmannanefndin um rannsóknarskýrsluna hafi allan forgang. Við höfum t.d. fengið þau svör, sjálfstæðismenn, þegar við höfum verið að kalla eftir fundum í nefndum út af einstökum málum, að ekki sé hægt að halda þá fundi fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku vegna þess að allir nefndarritarar séu uppteknir við störf með þingmannanefndinni. Ég vildi því koma hér og lýsa þessum skilningi mínum á málinu enda er þetta mál svo sem búið að bíða og stutt til 1. október, þannig að ef tíminn er nýttur vel í millitíðinni þarf kannski ekki að vera nein hætta á ferð.

Þetta vildi ég sagt hafa og óska eftir viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra ef hann kemur hér í lok umræðunnar til þess að glöggva okkur á þessu.