138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[12:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir bendir á að hér er um 1. umr. máls að ræða. Sem nefndarmaður í efnahags- og skattanefnd finnst mér þó brýnt að nefndin taki þetta mál fyrir, taki fyrir þær athugasemdir sem komið hafa fram í umræðunni, hvort við séum mögulega, ef við samþykkjum frumvarpið, að veita of víðtækar heimildir. Ég ætla ekkert að dæma um það á þessu stigi máls en ég vil vekja athygli á því að við erum að ræða um mjög mikilvægt mál sem er ætlað að verja hagsmuni ríkissjóðs, þ.e. að menn geti ekki komið undan eignum á meðan rannsókn fer fram. Ég tel mjög mikilvægt að skattyfirvöld hafi slíkar heimildir. Ég man vel eftir þeirri umræðu sem við áttum hér síðastliðið vor. Þar vorum við ekki sammála, fulltrúar stjórnmálaflokkanna, í þeim efnum. En ég tek samt sem áður undir þau sjónarmið sem hafa verið viðruð hér að ef við leiðum þetta frumvarp í lög geti það mögulega skert mannréttindi einstaklinga eða gengið að fólki og því finnst mér það skylda okkar þingmanna að fara vel yfir það. Þó að málið sé hér til 1. umr. vil ég ekki skjóta mér undan því að fjalla vel og ítarlega um það vegna þess að ég held að hér séu miklir hagsmunir undir og sem fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd lýsi ég mig reiðubúinn til að vinna vel að þessu máli og skoða það fordómalaust. Ég tel mig hafa vitneskju um að það sé ekki að ástæðulausu sem málið er lagt fram vegna þess að miklir hagsmunir búa hér að baki.

Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hafa tekið það sérstaklega fram um leið og þeir hafa dregið fram nöturleg mál einstaklinga sem telja sig hafa farið illa út úr framkvæmd starfsmanna skattsins að ég ber fullt traust til yfirmanna skattsins hér á landi. Ég held að þeir njóti trausts fulltrúa allra stjórnmálaflokka, a.m.k. þeirra einstaklingar sem sitja í efnahags- og skattanefnd þingsins.

Ég lýsi yfir jákvæðni í garð þessa máls og tel að við eigum að fara mjög yfir það á vettvangi efnahags- og skattanefndar. Í þeirri nefnd hefur verið mjög gott samstarf á undangengnum mánuðum undir forustu formanns nefndarinnar, Helga Hjörvars. Ég vil að við höldum því góða samstarfi áfram þar sem oftar en ekki hefur verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem við í minni hlutanum höfum lagt til málanna. Ég vona að við höldum því ágæta samstarfi áfram, það veitir svo sannarlega ekki af því.