138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[12:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðeins um málsmeðferðina sem hér var rædd af nokkrum þingmönnum áðan. Eins og ég sagði í framsögu minni er mér það að sjálfsögðu ljóst að málið kemur inn á þetta stutta haustþing. Það er alfarið í höndum Alþingis að meta hver verða afdrif þess hér á þessum haustdögum. Ég leyni því ekkert að það kæmi sér ákaflega vel, það er mat þeirra sem annast framkvæmd þessara mála, ef hægt væri að fá lögum breytt þannig að þessar heimildir yrðu ótvírætt til staðar alls staðar þar sem kynni að þurfa að reyna á þær. Í öðru lagi er þingnefndinni málið náttúrlega vel kunnugt frá því að hafa nýverið fjallað um það. Í þriðja lagi er það svo bara spurning um mat nefndarinnar og þingsins hvað hér er mikilvægast og hvort samstaða getur orðið um að meta málið þannig að það tali svoleiðis fyrir sig sjálft að ástæða sé til að það fái afgreiðslu. Ef ekki verða menn að lifa við það. Ég mundi þá endurflytja málið strax í byrjun október en það yrði eingöngu til þess að gera það.