138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. „Alltaf reynt að bregðast við óskum gesta,“ sagði formaðurinn. Það er ekki rétt. Það er greinilegt af lestri umsagna um málið að gestir eru að óska eftir því að fá að koma skoðunum sínum á framfæri. (Utanrrh.: Hann sagði ekki gesta nefndarinnar, hann sagði …) (RM: Nefndarmanna.) Ég skal bara fá að halda mína ræðu og hæstv. utanríkisráðherra fær að gera slíkt hið sama hér á eftir. (RM: Hafðu rétt eftir.) Málið var tekið út vanbúið og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu athugasemdir við það í allsherjarnefnd. Málið var tekið út vanbúið og var ekki tækt til að halda áfram og taka það inn í 2. umr. Það er það sem hefur komið fram í málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins í nefndinni og það kemur líka fram í nefndaráliti 1. minni hluta. Þar segir m.a.:

„Frumvarpið er hins vegar hvorki nægilega undirbúið né rökstutt af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar og telur minni hlutinn því að heppilegast væri að ríkisstjórnin tæki málið aftur til umfjöllunar og legði síðan fram á Alþingi nýtt frumvarp …“

Hv. þingmaður spurði: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera? Ég fór yfir það í ræðu minni hvernig standa á að breytingum, slíkum grundvallarbreytingum sem þessum, hvaða vinnubrögð eigi að viðhafa. Þá er það þannig að það er ekki rétt verklag að taka fyrst ákvörðunina, gera breytingarnar fyrst og fara svo í samráðið. Þetta snýr allt á haus.

Ég notaði dæmið um Varnarmálastofnun til hliðsjónar vegna þess að þar var þetta sama gert. Fyrst er verið að leggja stofnunina niður og síðan er ráðuneytið stofnað. Þetta finnst mér ótæk vinnubrögð. Það er þetta sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd lögðu áherslu á. Hvort þeir hafi komið með formlega ósk í nefndinni um gesti þekki ég ekki, veit ekki, en það getur vel verið (Forseti hringir.) að þeir hafi átt eftir að gera það, vegna þess að málið er ekki tækt, málið er ekki búið. Það kemur skýrt fram í (Forseti hringir.) umsögn þeirra.