138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Hv. þingmaður spyr hvort forsætisráðherra megi ekki ráða þessu alveg sjálf, hvort hún megi ekki bara reka sína ríkisstjórn með þeim hætti sem hún vill. Hún ber að sjálfsögðu ábyrgð á því. En þá á þessi forsætisráðherra, sá hinn sami og ber ábyrgð á frumvarpinu sem hún lagði fram, ekki að vera með þessa klausu í því: „… gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“ Forsætisráðherrann er að boða að það þurfi þetta samráð sem (Gripið fram í: Hvaða rökstuðningur …?) hv. þingmanni (Gripið fram í: Hvaða rökstuðningur …?) finnst vera algjör óþarfi. Að spyrja aðila eins og Landssamband lögreglumanna, eiga þeir að hafa skoðun á því hvernig hlutirnir eiga að vera? Nei, þarna kemur þetta bara í ljós. (Gripið fram í.) Það kom skýrt og greinilega fram í máli þingmannsins að það var búið að „díla“ um þetta. Loksins náðist „díllinn“. Samráðið í sumar var á milli stjórnarflokkanna, milli órólegu deildarinnar og restarinnar af ríkisstjórninni. Samráðið tókst loksins þar og samkomulag náðist um að gera ákveðnar breytingar og þar við situr. Það er bara nákvæmlega þannig sem þetta er. Það er ágætt að hv. formaður allsherjarnefndar kom hér og viðurkenndi þetta. Þá vitum við það bara og þannig er það. Ég geri hins vegar athugasemdir við það.

Varðandi það að ekki hafi verið óskað eftir því að málið færi inn til fagnefnda þá er það líka rangt. Við 1. umr. málsins óskaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson héðan úr þessum stól eftir því að það yrði gert. Einar K. Guðfinnsson á ekki sæti í allsherjarnefnd þannig að hann kom fram með þessa beiðni úr þessum stól og ég hefði haldið að það væri nóg fyrir hv. þingmann sem talar um umræðustjórnmál og samráð í öðru hverju orði (RM: Var ekki …?) nema akkúrat núna. (Gripið fram í.) Þetta mál var ekki sent til umsagnar í fagnefndum þingsins. (RM: Var ekki …?)