138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað eiginlega eingöngu út af þeirri beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að vísa frumvarpinu til fagnefnda sem hann mun hafa flutt hér strax við 1. umr. í vor ef ég skil það rétt.

Það var fundur í allsherjarnefnd í hádeginu og það var mál allra þeirra sem þar voru saman komnir — ég vil taka það fram að hv. þm. Ólöf Nordal var ekki viðstödd og hv. þm. Birgir Ármannsson hafði ekki verið á fundinum þegar þessi beiðni mun hafa verið borin fram en hún hafði einhvern veginn farið fram hjá okkur öllum. Við biðjumst öll afsökunar á því en formaður nefndarinnar lýsti því yfir að hann mundi fara þess á leit að málinu yrði vísað til fagnefnda. Ég bið þingmanninn bara að athuga að þetta er nú komið í þann farveg sem hann óskaði eftir, vissulega einhverjum mánuðum seinna en hann óskaði en því miður tókst svona til.