138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst umræðan sem stóð hér allan eftirmiðdaginn í gær og hefur staðið í dag svolítið skrýtin. Umræðan er um tillögu um sameiningu ráðuneyta. Breytingar sem allsherjarnefnd leggur til við frumvarpið, sem upphaflega var flutt hér í vor, eru að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði frá 1. janúar nk. sameinuð í innanríkisráðuneyti og að heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti verði sameinuð í velferðarráðuneyti frá sama tíma.

Það er rangt sem sagt var hér í gær að þetta hafi þegar verið gert. Hins vegar hefur sami maðurinn verið settur til að gegna embætti ráðherra í þeim ráðuneytum sem á að sameina, þ.e. hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson er nú annars vegar ráðherra samgöngumála og hins vegar ráðherra dóms- og mannréttindamála. Á sama hátt er hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson nú ráðherra heilbrigðismála og einnig ráðherra félagsmála. Þetta er ekkert nýtt, þetta hefur oft verið gert í sögunni. Það er hlutverk þessara tveggja manna á næstu þrem mánuðum að undirbúa sameiningu þessara ráðuneyta. Ég held að það sé skynsamleg ráðstöfun og ég vil hnykkja á þessu vegna þess að hér var sagt fyrr í dag að búið væri að breyta nöfnunum á ráðuneytunum. Það er ekki búið að því, það gerist ekki fyrr en 1. janúar.

Ég held að starfsmönnum þeirra ráðuneyta sem um er að ræða hljóti að þykja umræðan á Alþingi svolítið einkennileg ef þeir heyra að búið sé að sameina þessa vinnustaði. Það er alls ekki búið að því. Þessir menn tveir sem ég nefndi áðan, hæstv. ráðherrar, hafa nú verið settir yfir það mikla verk að sameina tvö og tvö ráðuneyti. Umræðan í gær snerist líka meira um ráðherra og minna um ráðuneyti. Það lýsir kannski best því sem stundum virðist ríkja í þessu húsi, að ráðherrar og ráðherradómur virðist upphaf og endir alls.

Við erum held ég öll sammála um nauðsyn þess að breyta í Stjórnarráðinu og gera rekstur þess hagkvæmari, skilvirkari og ódýrari en hann er í dag. Sú breyting sem hér er lögð til hefur það að markmiði. Það má sannarlega hugsa sér að hafa einhverja aðra skipan. Það má t.d. hugsa sér að það sé litið á Stjórnarráðið allt sem eina heild, að það sé ekki niðurnjörvað í lögum hvað hvert ráðuneyti gerir eða að einn ráðherra sé sérstaklega yfir einhverjum ráðuneytum eins og er í því kerfi sem við búum við. Þetta mun ríkja í löndum í kringum okkur, það er mynduð ríkisstjórn, ráðherrar eru settir yfir mismunandi málaflokka og þá heyra ekkert endilega saman þeir málaflokkar sem heyrðu saman í ríkisstjórninni sem var á undan. Þetta er ein leið.

Hér er lögð til önnur leið og hún getur verið góð. Hún miðar a.m.k. að því að brjóta niður þá veggi sem virðast ríkja á milli hinna ýmsu ráðuneyta. Allir sem skoða ráðuneytin tala um turna, eða síló, í stjórnsýslunni, að fólk starfi í einhverjum turnum, sjái ekki út fyrir þá og geti ekki ímyndað sér hvernig hægt sé að vinna saman verkefni sem ekki eru í sama turninum. Það er út fyrir sig ekkert einsdæmi í Stjórnarráðinu eða stjórnsýslu að þeir sem halda um stjórnartauma vilji halda sem fastast í þá og halda öllum verkefnum hjá sér. Þetta þekkist í fyrirtækjum og stofnunum, þetta þekkist alls staðar.

Það sem mér finnst svolítið sérkennilegt er að ráðherrar virðast smitast af þessu um leið og þeir setjast í ráðherraembætti. Jafnvel þó að menn viti að þeir eigi ekki eftir að vera þar um aldur og eilífð smitast þeir strax af því að þurfa að halda utan um öll verkefni sem voru fyrir í þeim ráðuneytum sem þeir fara fyrir, jafnvel þó að öll skynsemi segi að kannski væri eðlilegra að flytja þau eitthvað annað.

Einhver hafði uppi þau orð að þegar flytja á verkefni milli deilda, milli ráðuneyta eða stofnana sé verkefnið sem á að flytja alltaf það veigamesta og mannfrekasta og það sem skipti mestu máli í umræddri deild, ráðuneyti, stofnun eða hvað það er. Síðan þegar á að flytja verkefnið og menn segja: Jæja, nú er búið að flytja þetta verkefni í burt, hvað getum við sagt upp mörgum? kemur í ljós að enginn hefur sinnt þessu verkefni — það er ekki hægt að flytja neinn, það má enginn fara burt vegna þess að þeir sem stjórna, hvort sem um er að ræða deild, stofnun, ráðuneyti eða annað, telja völd sín annars vegar í verkefnafjölda sínum, jafnvel þó að þeir ráði ekkert við verkefnin vegna þess að þeir hafa ekki mannskap til þess, og svo í hausum. Þannig virðast menn tútna út á því að halda að þeir séu þeim mun mikilvægari sem verkefni þeirra eru fleiri, jafnvel þó að þeir ráði ekki við þau, og starfsmenn sömuleiðis — sem þeir hafa jafnvel ekkert við að gera.

Nú er ég ekki að segja að þetta sé þannig í Stjórnarráðinu. Ég er bara að segja að þetta er svona alls staðar. Ég held að við séum öll sammála um að það þurfi einhvern veginn að leysa þetta. Það þarf einhvern veginn að gera rekstur Stjórnarráðsins hagkvæmari og skilvirkari.

Sjálf er ég mikil áhugamanneskja um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég hugsa þetta í báðar áttir, mér finnst að löggjafinn eigi að vera sjálfstæðari í störfum sínum en hann er í dag. Mér finnst að ráðherrar eigi ekki að sitja sem fullgildir þingmenn á Alþingi. Ég er hins vegar líka á því að framkvæmdarvaldsins sé það sem framkvæmdarvaldsins er og að þingmenn eigi ekki að vasast í daglegu amstri framkvæmdarvaldsins. Við eigum vissulega að hafa eftirlit með því en við eigum ekki að vasast í því.

Það mál sem við erum að fjalla um hér í dag og menn hafa eytt, held ég, bráðum átta eða tíu klukkutímum í að ræða hefði mátt afgreiða með forsetaúrskurði. Það þarf ekki að leggja það fyrir þingið. Ég er ekki frá því að það hefði verið betri leið en þessi leið var farin og þá finnst mér sannast að segja nokkuð kúnstugt að menn eyði hér öllum þessum tíma í umræður um þetta efni án þess að leggja nokkuð nýtt til. Þeir segja bara: Þetta er ómögulegt, við viljum hafa þetta öðruvísi.

Sannast að segja held ég að við í þinginu höfum ekkert mikið til þessara mála að leggja. Við erum ekki sérfræðingar í því hvernig best er að byggja upp embættismannakerfið í Stjórnarráðinu. Við höfum auðvitað skoðanir á því hvaða málaflokkar heyra saman og við höfum skoðanir á þeirri stefnu sem á að reka í Stjórnarráðinu vegna þess að Stjórnarráðið á að starfa eftir þeim ramma sem við ákveðum hér. Við eigum hins vegar ekkert að vera með puttana í daglegum rekstri Stjórnarráðsins frá degi til dags. Umræðan hér sýnir líka að menn þvælast strax inn í ráðherradóminn sem er samt sem áður einungis smáatriði í öllu þessu máli. Það sem skiptir máli er að raða verkefnunum þannig saman að innan Stjórnarráðsins nái fólk að vinna saman að líkum verkefnum og að ekki hlaðist upp múrar á milli manna þannig að þeir viti ekki hvað er að gerast í skyldum málefnum. Það þarf að vera hægt að sameina stofnanir sem heyra í dag undir ólík ráðuneyti en með því að stækka ráðuneytin og sameina líka þætti undir eitt ráðuneyti verður auðveldara að vinna að slíkri sameiningu.

Ég vil aðeins koma inn á það að í gær var talað um að þetta frumvarp væri ekki unnið í sátt við stjórnarandstöðuna. Menn nefndu vinnubrögðin við setningu laga um stjórnlagaþing sem dæmi þar sem allsherjarnefnd hefði unnið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þá er frá því að segja að í allsherjarnefnd var stungið upp á sáttaleið, nefnilega þeirri að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar, að hún undirbyggi það áfram og ákvæði síðan með forsetaúrskurði hvernig ráðuneytunum skyldi hagað. Um þetta náðist hins vegar ekki samstaða í allsherjarnefnd. Þegar ekki næst samstaða um sáttaleið er ekkert annað að gera fyrir meiri hlutann en að ákveða vegna þess að annars gerist aldrei neitt. Það er það sem ég held að þingmenn hér þurfi svolítið að læra, sérstaklega þeir sem eru vanir því að vera í stjórn og ráða, að stundum verður að láta undan. Stundum er ekki hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu og þá ræður meiri hlutinn. Ég held að menn sem hafa verið hér lengi og þá tilheyrt stjórnarmeirihluta þekki það mjög vel að stundum verður meiri hlutinn að taka ákvörðun sem er þá ekki í sátt við minni hlutann, það er alveg ljóst. En ég mótmæli því að það sé mark um einhverja sérstaka valdníðslu, óvönduð vinnubrögð eða hvað sem þetta heitir allt saman.