138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra þetta. Frumvarpið er ekkert smámál, þetta er hvorki meira né minna en nýtt Stjórnarráð Íslands. — Hér eru nokkrir stjórnarliðar á vappi þannig að ég hvet þá til að leiðrétta okkur ef við förum með rangfærslur. Það er ekki gott, virðulegi forseti, og hér hafa stjórnarliðar tækifæri til að leiðrétta okkur stjórnarandstæðinga ef við förum rangt með.

Getur það virkilega verið? Ég trúi ekki hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er útilokað að menn hafi ekki fjallað um þetta. Hér er t.d. talað um samþættingu stofnana á félags- og heilbrigðissviði. Það er útilokað annað en að menn hafi kynnt í nefndinni um hvaða stofnanir er að ræða. Víðar er talað um að sameina eigi stofnanir og ná fram sparnaði. Ég trúi því ekki, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur talað fyrir faglegum vinnubrögðum, að vanda betur til verka, en nú grípur hæstv. forsætisráðherra fram fyrir hendurnar á þinginu og kallar til einkaaðila sína til að koma með útfærslu á viðbrögðum við bankahruninu.

Getur verið að hv. þm. Birgir Ármannsson sé að halda því fram að menn hafi ekki sett fram ítarlega útfærslu á því hvernig ná á þessari hagræðingu og sparnaði? Hv. þingmaður hlýtur að hafa heyrt hvaða stofnanir menn ætla að sameina, annað getur ekki verið. Ég vona að hv. þingmaður svari mér því ég er ekki tilbúinn til að trúa því að málið sé svona vanreifað. Það er útilokað.