138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að það er einstaklega óheppilegt að 1. flutningsmaður málsins, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, skuli ekki vera viðstödd umræðu um eigið frumvarp. Ekki síst vegna þess að við sem leggjum okkur fram við að fara yfir málið og ræða það efnislega höfum lagt fram fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra um það og ég hygg að menn muni gera það eftir því sem líður á umræðuna. Þá er auðvitað algjörlega óþolandi að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna og svara þeim spurningum sem að henni er beint, vegna þess að málið er mikilvægt. Það varðar yfirstjórn ríkisins, Stjórnarráð Íslands, og það er eðlilegt að fjölmargar spurningar vakni vegna þess.

Nú veit ég, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra er ekki á landinu. Yfirstjórn þingsins hefði verið í lófa lagið að fresta umræðunni og halda henni síðan áfram þegar hæstv. forsætisráðherra gæti verið viðstödd. Hæstv. forsætisráðherra má þó eiga að hún sendi inn varamann sinn eða hlaupadreng í formi hæstv. utanríkisráðherra sem var við umræðuna og tók einkum þátt í henni með frammíköllum en efnislegt framlag hans til umræðunnar var býsna lítið.

Hvers vegna kvarta ég yfir því að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna? Jú, vegna þess að þetta frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands er líklega mesta, a.m.k. eitt mesta vandræðamál ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Hæstv. forsætisráðherra lagði málið nefnilega fram án þess að fyrir því væri stuðningur í ríkisstjórnarflokkunum, hvað þá í ríkisstjórninni sjálfri. Frumvarpið var ekki lagt fram í sparnaðarskyni af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Það var ekki einlægur sparnaðarvilji Jóhönnu Sigurðardóttur hæstv. forsætisráðherra sem gerði það að verkum að hún lagði frumvarpið fram. Það var ekki heldur einlægur vilji hennar til að sameina ráðuneyti í hagræðingarskyni sem gerði það að verkum að hún sá sig knúna til að leggja það fram. Nei, eins og ég fór yfir í ræðu minni um málið í gær fól frumvarpið í sér pólitískt uppsagnarbréf til handa Jóni Bjarnasyni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilgangurinn með framlagningu frumvarpsins í upphafi var að hæstv. forsætisráðherra, með aðstoð hæstv. fjármálaráðherra, ætlaði sér að losa sig við fulltrúa órólegu deildarinnar í Vinstri grænum úr ríkisstjórninni með því að sameina ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála við ráðuneyti iðnaðarmála.

Síðan gerist það að fulltrúar órólegu deildarinnar í Vinstri grænum — sem eru reyndar uppnefni vegna þess að þeir eru sá hópur í þingflokki Vinstri grænna sem er annt um loforð sín og stefnu flokksins og vilja framfylgja henni en ekki stefnu Samfylkingarinnar — brugðust illa við og sættu sig ekki við vinnubrögðin. Þá var þessu stóra pólitíska ágreiningsmáli innan ríkisstjórnarinnar slegið á frest. Málið var auðvitað ekki leyst en því var slegið á frest. Þess vegna sitjum við uppi með frumvarpið sem við ræðum nú, þ.e. það sem eftir er af upphaflegu frumvarpi.

Það væri kannski að æra óstöðugan að fara yfir hversu illa undirbúið og illa unnið málið er. Það er búið að fara yfir það nákvæmlega í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar og í umræðunum en fyrst og fremst í yfirlýsingu sem hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og sjálfur Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem ber þetta mál fram, fóru yfir og lögðu fram á þingflokksfundi Vinstri grænna og síðar í þingsalnum. Þar fóru þeir yfir það að frumvarpið væri svo illa unnið, svo ófaglegt og það skorti svo mikið á samráðið að ekkert í málinu uppfyllti kröfurnar og skilyrðin sem sett eru um undirbúning og frágang lagafrumvarpa í handbók sem sjálft forsætisráðuneytið gaf út.

Það virðist vera þannig að hvorki formaður hv. allsherjarnefndar, sem sér ekki einu sinni sóma sinn í því að vera viðstaddur umræðuna því miður, né ríkisstjórnin og þá kannski allra síst Árni Páll Árnason, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, af ástæðum sem ég ætla ekki að fara nánar yfir vegna þess að ég á lítinn ræðutíma eftir, að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafi aldrei lesið þessa bók. Að minnsta kosti verður ekki annað séð, þegar maður les frumvarpið og fer yfir hvernig það hefur verið unnið, að hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni sé ekki kunnugt um hvernig standa eigi að undirbúningi og frágangi lagafrumvarpa.

Þessir menn gagnrýndu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekkert að skamma stjórnarandstöðuna fyrir að gera athugasemdir við vinnubrögðin og taka þar undir með stjórnarþingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í.) — Ég tek eftir því að hv. þm. Róbert Marshall er genginn í hús og ég fagna því.

Nú spyrja þeir hinir sömu og gerðir voru afturreka með upphaflegt frumvarp: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera varðandi Stjórnarráð Íslands? Vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki beita ráðdeild og sparnaði í ríkisrekstrinum? Jú, auðvitað viljum við það. Við viljum spara og við erum reiðubúin að skoða hvort ekki megi minnka stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari og ódýrari. Ég efast reyndar um að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn í Samfylkingunni sem vilja ganga í Evrópusambandið telji að draga eigi mikið saman í stjórnsýslunni vegna þess að gangi Ísland í Evrópusambandið er viðbúið að íslensk stjórnsýsla þenjist út með tilheyrandi kostnaði. Við erum reiðubúin til umræðu um þetta en við viljum ekki gera það á þeim forsendum sem hér er lagt upp með í umræðum um kolómögulegt frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram í óþökk eigin ráðherra og ríkisstjórnarflokkanna beggja, a.m.k. að hluta.

Við skulum ræða þetta. Ég er reiðubúinn að leggja fram ýmsar hugmyndir um sparnað og ráðdeild í ríkisrekstrinum. Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til að ganga örugglega lengra en hæstv. utanríkisráðherra er reiðubúinn að gera. Ég er tilbúinn til að leggja fram jafnvel byltingarkenndar hugmyndir. Ég get alveg séð fyrir mér að Íslendingar komist af með færri ráðuneyti en í dag. Þau gætu t.d. verið forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og velferðarráðuneyti — sex ráðuneyti. Það má halda því fram að það sé hægt. Því fylgja kostir en líka gallar. En við gerum ekki slíkar breytingar nema að vel athuguðu máli og á grundvelli mikils undirbúnings.

Ég kvaddi mér hljóðs til að taka undir kröfur hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem hefur óskað eftir því að málið gangi til fagnefnda þingsins milli 2. og 3. umr. Sú krafa var kurteisislega fram sett af hálfu hv. þingmanns og forusta allsherjarnefndar hefur tekið vel í hugmynd hans. En ég vil ganga lengra, ég vil ganga mun lengra í samráði við aðila utan þingsins. Ég óska eftir því að málið verði sent til umsagnar til heilbrigðisstéttanna og starfsstétta sem heyra undir (Forseti hringir.) ráðuneytin sem fyrirhugað er að sameina samkvæmt frumvarpinu.