138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að stjórnarliðar taka ekki taka þátt í umræðunni. Ég hef ekki séð hv. formann allsherjarnefndar á svæðinu. Ég sé að vísu tvo glæsilega stjórnarliða í salnum og vonast til þess að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við þá. Um stöðuna á stjórnarheimilinu segir ekkert nýtt í frumvarpstextanum. Með leyfi forseta segir á bls. 5:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“

Það átti að nýta sumarið til samráðs. Það var ekki gert, virðulegi forseti. Þetta var ekki einu sinni sent til umsagnar hagsmunaaðila. Þá vitna ég í þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Norræna velferðarstjórnin sendi málið hvorki til skjólstæðinga félags- og tryggingamálaráðuneytisins né heilbrigðisstéttanna til umsagnar.

Ég vil að einhver úr meiri hlutanum útskýri af hverju það er. Ég fer fram á útskýringar á því af hverju frumvarpið var sent til umsagnar bænda, útvegsmanna og endurskoðenda, en ekki heilbrigðisstétta. Þar er fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Hvers vegna er það?

Menn segja ástæðuna fyrir frestun atvinnuvegaráðuneytis, sem er kannski rökréttast, vera harðari andstöðu umsagnarhópanna. Þeir sem eiga að nýta þjónustu risaráðuneytisins, sem er með 52% af ríkisútgjöldunum, fá ekki að koma fram með sín sjónarmið. Af hverju er það, virðulegi forseti? (Gripið fram í: Það er læknir í hliðarsalnum Spurðu hann.)

Virðulegi forseti. Mér er bent á að hér sé hv. þingmaður sem er jafnframt læknir. Kannski hann útskýri fyrir okkur af hverju það er. Hann er örugglega ekkert verr til þess fallinn en einhver annar stjórnarliði.

Er staðan hjá þessari svokölluðu norrænu velferðarstjórn orðin þannig að fólki er alveg sama? Er enginn af stjórnarliðunum sem fylgist með umræðunni sem finnst þetta athugavert? Er ástandið orðið svona? Þetta er eitt þessara mála sem við þurfum að klára til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Það þarf að ýta þessu frá. Er ástandið orðið þannig? Finnst þeim þetta eðlilegt? (Gripið fram í.) Engir sem þurfa á þjónustu velferðarráðuneytisins svokallaða að halda fengu þetta sent til umsagnar. Hins vegar fengu hagsmunaaðilar í útvegi, bændur og endurskoðendur að tjá sig. (Gripið fram í: Forréttindastéttirnar.) Já, virðulegur forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar: Forréttindastéttirnar. Það er rétt. Það er augljóst hjá norrænu velferðarstjórninni að ekki sitja allir við sama borð.

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa meira því að ég er að reyna að fá einhverjar röksemdir í málið. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 4:

„Dæmin sanna að þær stofnanir sem sameinaðar hafa verið á undanförnum árum eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem glímt er við í ríkisrekstri í dag og stærri og öflugri einingar eiga auðveldara með að endurskipuleggja sig og takast á við breytingar. Þá er það einn af lærdómum af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þörf er á að efla ráðuneytin og ein leið að því marki er að stækka þau með sameiningu.“

Virðulegi forseti. Hér er talið mikilvægt að sameina ríkisstofnanir. Þessi ríkisstjórn stoppaði til dæmis sameiningu ríkisstofnana á heilbrigðissviði. Ég held að allir séu sammála um að það væri skynsamleg aðgerð. Það var fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að stöðva sameiningar. Síðan koma menn og þylja sömu þuluna af því að hún hljómar ágætlega. Þegar þeir hafa tækifæri til þess stöðva þeir það.

Hver trúir því, virðulegi forseti, að frumvarpinu sé ætlað að ná einhverjum árangri? Þetta er bara partur af pólitískum hrossakaupum. Frumvarpið á að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar. Þeir sem verða fyrir barðinu á slíkum hrossakaupum eru þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og þjónustu félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þvert á það sem segir í öllum þessum röksemdafærslum. Hér segir á hverri síðu: Lítil ráðuneyti eru of lítil. Við þurfum að sameina þau. Þetta segja stjórnarliðar ef þeir á annað borð fást til að ræða þetta. Ætla menn þá að sameina litlu ráðuneytin? Kannski iðnaðarráðuneytið eða slíkt ráðuneyti sem er með 1% af ríkisútgjöldum? Nei, virðulegi forseti, menn ætla ekki að sameina þessi litlu. Menn ætla að taka stóru ráðuneytin, heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið, og sameina þau. Fyrir þremur árum var heilbrigðisráðuneytið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Því var skipt og tryggingamálin færð yfir í félagsmálaráðuneytið af því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þótti of stórt. Það fór víst ekki vel saman að hafa heilbrigðis- og tryggingamálin saman. Hverjir skyldu hafa verið í ríkisstjórn þegar þetta var gert? Jú, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Hverjir lögðu mesta áherslu á það? Jú, það var Samfylkingin. (Gripið fram í: Og hvaða ráðherra?) Hvaða ráðherra skyldi það hafa verið? Gott ef það var ekki hæstv. forsætisráðherra. Nú hentar þetta hins vegar vel í þessum pólitísku hrossakaupum. Við skulum bara kalla þetta réttu nafni. Það liggur engin vinna til grundvallar frumvarpinu. Þessu var hent inn í þingið í vor og sagt: Verið róleg, sumarið verður nýtt til samráðs. Það var ekki gert. Svo langt var gengið að þeir aðilar sem þurfa mest á heilbrigðis- og félagsþjónustunni að halda fengu ekkert að segja. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef séð ýmislegt í þinginu og ýmislegt hefur verið gagnrýnt, en ég man aldrei eftir slíkum vinnubrögðum.

Hér er talið upp að sameina eigi stofnanir og annað slíkt en engar áætlanir eru um hvað á að sameina. Það er hægt að sameina á óskynsamlegan hátt. Það væri ekki gott að sameina t.d. Landspítalann og Landhelgisgæsluna. Það ynnist ekkert með því, þótt við skelltum lögreglunni með. Dæmi er um að farið verði í sameiningar stofnana sem væri óskynsamlegt. Ef við ætlum að gera þetta vel þá þarf að bæta stjórnsýsluna, virðulegi forseti. Við þurfum að skilgreina betur eftirlitshlutverk ráðuneyta gagnvart undirstofnunum. Það er gríðarstórt verkefni. Útgangspunkturinn er ekki sá hvernig hægt er að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar á milli mánaða. Hér hlaupa menn svo hratt að röksemdir þeirra standast enga skoðun í þessari stuttu greinargerð.

Ég hef áður nefnt samþættingu velferðarúrræða eins og heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Heimaþjónustan lýtur lögum sveitarfélaga þannig að slík samþætting eða sameining hefur ekkert með sameiningu ráðuneyta að gera. Ég hef skoða ýmislegt fleira sem ég vildi gjarnan fara yfir. Ég ætla nú ekki að biðja stjórnarliða afsökunar á því að ræða þetta mikilvæga mál hér, en það er augljóst að þeir hafa ekki áhuga á því.