138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:49]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Minni hlutinn fer mikinn í umræðum um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og brigslar meiri hlutanum um að reyna að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar eða standa í pólitískum hrossakaupum. Ef menn vilja standa við þau orð sín þykir mér þeir hafa lítið lært af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og af starfshópi forsætisráðherra þar sem stjórnvöld eru beinlínis hvött til að sameina ráðuneytin til að gera þau styrkari í að sinna hlutverki sínu. Við þessu er brugðist með frumvarpinu.

Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson talaði líka um að við værum nauðbeygð til að taka við nýjum ráðherrum inn í ríkisstjórnina. Hann var væntanlega að vísa í orð mín í fréttatíma sjónvarps í síðustu viku þar sem fréttamaður sneri spurningu upp í staðhæfingu og lagði mér orð í munn. Ég sagði það ekki, þvert á móti sagði ég að ég teldi mikilvægt að styrkja ríkisstjórnina með þessum hætti til að geta haldið áfram. En það er annað mál.

Sameining stofnana sem mun leiða af sameiningu ráðuneyta er mikilvægur liður í því að styrkja stjórnsýsluna í landinu. Við erum þegar farin að undirbúa sameiningu stofnana. Það vita t.d. þeir sem sitja í félags- og tryggingamálanefnd. Við höfum þar verið að ræða stofnanir á vegum núverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis. Ákveðið var að bíða með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins þangað til eftir sameiningu ráðuneyta til að geta horft víðar yfir sviðið við sameiningu stofnana.

Ég er sannfærð um að nýtt atvinnuvegaráðuneyti er mikilvægt lóð á vogarskálina við að byggja upp nýtt og öflugt atvinnulíf á Íslandi. Það er orðið mjög brýnt að horfa á myndina í stærra samhengi en nú er gert.