138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað hv. þingmann um að svara einni spurningu. Ég fer fram á að hv. þingmaður svari henni: Finnst hv. þingmanni boðlegt að senda ekki þetta frumvarp til fólksins sem nýtur þjónustunnar og á samskipti við heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið? Ég fer fram á að hv. þingmaður svari þessu.

Hér kom hv. þingmaður og sagði að hann teldi að þetta væri alveg prýðilega unnið. Ég vil að einhver stjórnarliði komi hér upp og útskýri hvað sé faglegt við að láta ekki heilbrigðisstéttirnar, ekki þá sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda og þá sem þurfa á þjónustu félags- og tryggingamálaráðuneytisins að halda gefa álit sitt. Hvað er boðlegt við að senda þessum hópum ekki málið til umsagnar?

Ég er búinn að kalla eftir þessu frá því í gær og er ekki einn þingmanna um það. Ef einhver hefur komið með röksemdina fyrir því af hverju þetta fólk fær ekki að segja álit sitt á þessu frumvarpi, ef einhver hefur gert það, vil ég biðja viðkomandi um að endurtaka það því að það hefur farið fram hjá öllum.

Tímasetningarnar sem stjórnarliðar settu sjálfir, virðulegi forseti, voru þær að sumarið yrði nýtt til samráðs svo að ég upplýsi hv. stjórnarliða um það. Það voru þeirra eigin áætlanir.

Ég vek athygli á því að stjórnarliðar tala fyrst og fremst um hvað sé mikilvægt að setja atvinnuvegaráðuneyti. En út af pólitískum hrossakaupum milli ríkisstjórnarflokkanna er því sleppt. (Forseti hringir.)