138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í andsvör við hv. þingmann Guðlaug Þór Þórðarson vegna þeirra orða sem hafa fallið í þessari umræðu sem lúta að fjarveru minni. Ég hef fylgst sérstaklega vel með umræðum í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar, enda reyni ég að missa aldrei af ræðum hv. þingmanns. Maður þarf ekki að vera lengi þingmaður hér til að átta sig á því að þar fer þingmaður sem hefur yfirburðaþekkingu á öllum málefnum Alþingis — öllum málaflokkum sem fjallað er um. Það eru fáir sem vita betur, fáir sem eru jafnhneykslaðir og sárreiðir yfir fákunnáttu okkar hinna þingmannanna sem fjöllum og vélum um málefni þingsins. Þess vegna reyni ég að hlýða með athygli á málflutning hv. þingmanns.

Það sem ég ekki skil í ræðu hans er sú ítrekun að engar heilbrigðisstéttir hafi fengið málið til umsagnar vegna þess að í inngangi að nefndaráliti er sérstaklega talið upp að málið hafi farið í umsögn til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, til Lyfjastofnunar, Lýðheilsustöðvar, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarráðs, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi. Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við með þeim málflutningi að telja upp í hvert skipti sem hann kemur í ræðustól að eingöngu bændur, sjómenn og endurskoðendur hafi fengið málið til umfjöllunar? Sá málflutningur er verulega villandi miðað við staðreyndir málsins.

Það væri líka óskandi að hv. þingmaður reyndi e.t.v. að stilla skap sitt í umræðum hér í þinginu. Það væri áferðarfagurt.